Íslendingurinn hugsaður sem tálbeita

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, lét þau ummæli falla við lok sérstakrar umræðu á Alþingi í morgun, um samstarf íslenskra og bandarískra lögregluyfirvalda sumarið 2011 og afskipti stjórnvalda að því, að hann hefði trú á því að bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefði ætlað sér að nota ungan Íslending, sem hún vildi yfirheyra hér á landi vegna hugsanlegrar árásar á tölvukerfi stjórnarráðsins, sem tálbeitu í rannsókn sinni á málefnum uppljóstrunarvefsins Wikileaks.

Ráðherrann lagði áherslu á að málið snerist ekki um Wikileaks af hálfu innanríkisráðuneytisins heldur aðeins hvort FBI hafi verið hér á landi á forsendum réttarbeiðni sem tekið hefði til starfa þeirra. Fullyrti hann að svo hefði ekki verið og því hefði þeim verið bönnuð frekari rannsóknarvinna hér á landi. Rannsóknarbeiðnin hefði snúist um mögulega tölvuárás en Ögmundi hefði hins vegar verið tjáð að rannsókn FBI hefði snúist um sakamálarannsókn í Bandaríkjunum gegn Wikileaks.

Þessu mótmæltu stjórnarandstæðingar og vísuðu í ummæli ríkissaksóknara sem hefði talið að um sama mál væri að ræða sem réttarbeiðnin næði til. Ummæli ráðherrans væri því á skjön við ummæli ríkissaksóknara. Var því ennfremur haldið fram að málið snerist af hálfu Ögmundar um pólitík en því höfnuðu stjórnarsinnar.

Árni Þór Sigurðssson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði einu pólitíkina hafa komið frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og málshefjanda, sem hefði sakað Ögmund um að stjórnast af kanafóbíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert