Hæstiréttur sýknaði í dag Tryggingamiðstöðina af kröfu Glitnis um ábyrgðartryggingar stjórnarmanna og yfirmanna bankans. Þetta er sama niðurstaða og varð í héraðsdómi.
Glitnir keypti svokallaða stjórnendatryggingu af Tryggingamiðstöðinni árið 2008. Gildistími tryggingarinnar var frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009. Samkvæmt vátryggingarskilmálum tók TM meðal annars að sér að greiða, fyrir hönd stjórnarmanna og yfirmanna, tjón vegna óréttmætra athafna þeirra í skilningi tryggingarinnar, hvort sem er gagnvart þriðja manni eða bankanum sjálfum, svo og að greiða tjón vegna óréttmætra athafna ef bankanum væri heimilt eða skylt að halda stjórnarmönnum eða yfirmönnum skaðlausum.
Málsaðilar deildu um hvort Glitnir hefði við lok gildistíma ábyrgðartryggingar stjórnarmanna og yfirmanna 1. maí 2009 öðlast rétt til að kaupa viðbótar tilkynningarfrest eða hvort tryggingin hefði fallið niður með öllu.
Eftir að samningur aðilanna gekk úr gildi tilkynnti Glitnir Tryggingamiðstöðinni um fjölmörg tjónstilvik, sem orðið hefðu á vátryggingartímanum. Talið var að samkvæmt orðalagi vátryggingarsamnings aðilanna gæti ekki reynt á rétt vátryggðs til kaupa á viðbótar tilkynningarfresti nema vátryggjandi hefði áður neitað að bjóða endurnýjun samningsins. Vísað var til þess að fjárhagsleg staða Glitnis við lok gildistíma samningsins hefði vegna bankahruns verið gjörbreytt frá því sem var við gerð hans ári fyrr og að Tryggingamiðstöðin hefði átt rétt til að fá upplýsingar um hag Glitnis í tilefni af ósk félagsins um endurnýjun tryggingarinnar.
Tryggingamiðstöðin hefði margsinnis leitað eftir upplýsingum um stöðu Glitnis sem félagið hefði ekki sinnt, án þess að gefa á því haldbæra skýringu hví það gat ekki veitt neinar upplýsingar. Vegna háttsemi Glitnis var Tryggingamiðstöðin talin hafa verið gert ókleift að gera tilboð í endurnýjun samningsins.
Loks var vísað til þess að ef Glitnir taldi að Tryggingamiðstöðin hefði synjað um endurnýjun samningsins, án þess að því félagi væri það ljóst, hefði Glitnir borið að upplýsa Tryggingamiðstöðina um þá afstöðu sína og bjóða fram greiðslu iðgjalds. Voru því ekki talin uppfyllt skilyrði þess að Glitnir gæti krafist þess að fá að kaupa viðbótar tilkynningarfrest og var Tryggingamiðstöðin sýknað af kröfu bankans.