Repjuolían uppfyllti ekki kröfur

mbl.is/Skapti

Repjuolía sem notuð var við útlögn vegklæðingar árið 2011 uppfyllir ekki skilyrði til slíkrar notkunar en hún er að of miklu leyti vatnsuppleysanleg. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem gerð var á olíunni vegna mikilla blæðinga í klæðningunni. Vegagerðin hefur hætt að nota repjuolíu.

Í kjölfar óvenju mikilla vetrarblæðinganna í síðasta mánuði sendi Vegagerðin sýni úr hvoru tveggja repjuolíunni og etýlesterenum (unnir úr lýsi) til rannsóknar í Þýskalandi. Niðurstaðan liggur fyrir og hefur Ásgeir Ívarsson efnaverkfræðingur hjá Mannviti farið yfir þær, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Niðurstaðan er sú að repjuolían úr sýninu uppfyllir ekki þær kröfur sem til hennar eru gerðar en etýlesterarnir gera það hins vegar en þessi efni hafa verið notuð sem þjálniefni/mýkingarefni í asfaltklæðingar eða bik á undanförnum árum.

„Það var þýska fyrirtækið ASG-Analytik Service GmbH sem annaðist þessar rannsóknir. Það er mat Ásgeirs að niðurstöður efnagreininganna staðfesti að repjuolían uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru til íblöndunarefna í bik. Hún inniheldur umtalsvert magn fitusýrumetýlesters auk ein- og tvíglýseríða. Samsetning repjuolíusýnisins sem nú var greint er þó töluvert frábrugðin samsetningu sýnis sem greint var árið 2010. Líklegar ástæður þess eru að sýnin eru ekki tekin úr sama tanki og mjög ólíklegt er að samsetningin sé ætíð hin sama óháð framleiðsludegi og/eða framleiðanda.

Niðurstaðan er að of stór hluti repjuolíusýnisins reyndist vatnsuppleysanlegur og gæti það skýrt hið mikla umfang blæðinganna í janúar. Líkt og kom fram á sínum tíma þá blæddi langmest úr köflum þar sem repjuolían hafði verið notuð en einnig blæddi úr köflum þar sem lifolía unnin úr lýsi (etýlesterar) hafði verið notuð og einnig í minna mæli úr köflum þar sem terpentína eða WhiteSpirit hafði verið notað.

Niðurstaða Ásgeirs Ívarsson er einnig sú að ekkert athugavert hafi fundist varðandi samsetningu lífolíunnar úr etýlesterunum.

Vegagerðin hefur ekki haft þá vinnureglu að taka sýni úr öllum förmum og látið greina þá, heldur hafa farmbréf og staðfestar efnisupplýsingar verið teknar gildar. Vegagerðin mun í framhaldinu fara yfir verklagsreglur og herða verklag við móttöku efna. 

Blæðingarnar í janúar voru mestar úr þeim köflum þar sem þessi ákveðna repjuolía hafði verið notuð á árinu 2011 en það var í síðasta sinn sem repjuolía var notuð til mýkingar við útlögn klæðingar.

Þessar niðurstöður geta skýrt umfang blæðinganna í janúar en sem fyrr telur Vegagerðin að ástæða blæðinganna sé samspil margra þátta, veðurfars, umferðar, magns allra efna sem notuð eru við útlögn klæðinga og hugsanlega enn fleiri þátta,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert