Enn eru að finnast kindur á lífi eftir óveðrið sem gekk yfir Norðurland síðastliðið haust en Daði Lange Friðriksson og Hólmgeir Eyfjörð fundu á laugardaginn tvær ær vestur af Hrossaborg á Mývatnsöræfum.
Fram kemur á fréttavefnum 641.is að þeir félagar hafi skroppið á rúntinn og ekið suður á Glæður og til baka. Þar sáu þeir gamlar slóðir í snjónum sem Daði hafi ákveðið að kanna nánar. Fljótlega rak hann augun í ærnar í 700-800 metra fjarlægð. Höfðu þeir samband við Egil Freysteinsson, bónda í Vagnbrekku, sem mætti á staðinn með tíkina Skottu til þess að handsama ærnar.
Þær reyndust vera í eigu Þorsteins Aðalsteinssonar, bónda á Geiteyjarströnd í Mývatnssveit, og voru báðar lamblausar þegar þeim var sleppt síðastliðið vor. Haft er eftir Daða að þær hafi hins vegar verið spikfeitar þegar þeir höfðu uppi á þeim og í mjög góðu ástandi.