Með breyttu skipulagi skóladagsins fyrstu 4-5 árin í grunnskóla er hægt að byggja upp þá grunnfærni sem nauðsynleg er til að ná tökum á öðrum námsgreinum. Takist vel til, er að auki hægt að minnka sérkennsluþörf og þar með mikla fjármuni.
Þetta segir Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við Háskólann í Þrándheimi í Noregi, en hugmyndir hans um skipulag skóladagsins hafa hlotið góðar viðtökur þar og fyrirhugað er að taka skipulagið upp í nokkrum skólum.
„Við Íslendingar höfum alla burði til að eiga fremstu skóla í heimi. En það er greinilegt að eitthvað er ekki að virka, hvorki fyrir þá slökustu né þá bestu. Við erum með eitt mesta brottfall úr menntaskólum sem þekkist og mikinn fjölda nemenda í sérkennslu. Við höfum ekki gert nógu mikið af því að byggja á nýjustu rannsóknum á þessu sviði og allt of margt er gert „af því bara”, því miður,” segir Hermundur.
„Við þurfum stjórnvöld sem eru tilbúin til að gera eitthvað nýtt, sem eru tilbúin til að láta hvert barn fá áskorun við hæfi. En áherslan í kennslufræði hefur ekki verið sem skyldi á atferli og heilastarfsemi. Endurtekin þjálfun er ekki nægileg í skólastarfi og afleiðingin er skortur á grunnþekkingu, ólæsi og skortur á áhuga.”
Hugmyndir Hermundar og samstarfsfólks hans hafa vakið mikla athygli víða. Þau eru í samstarfi við vísindamenn víða, t.d. í Harvard og Cambridge og hefur verið fjallað nokkuð um þetta nýja skipulag skóladagsins í norskum fjölmiðlum.
Í stuttu máli sagt er lagt er til að skóladagurinn hefjist á líkamlegri hreyfingu í klukkustund. Að því búnu taki við þrjár kennslustundir, hver um sig 40 mínútna löng með hléi á milli. Þar sé kenndur lestur og stærðfræði. Eftir hádegi taki síðan við kennsla í öðrum námsgreinum þar sem nemendum er skipt í hópa og aðstoð við heimanám.
„Við viljum koma með nýjustu kenningar um þróun náms inn í skólann og það, að einblína á grunnþættina fyrir hádegi skiptir miklu máli,” segir Hermundur. „Við getum bætt lestrarkunnáttu og þannig minnkað þörf á sérkennslu. Við þurfum að sjá til þess að allir kunni að lesa og reikna. Það er grunnurinn að öllu öðru námi.”
Á síðasta skólaári fengu 27,5 % grunnskólanemenda á Íslandi sérkennslu og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár og áratugi. Hermundur segir það sæta furðu að svo margir fái slíka kennslu, þar sem rannsóknir sýni að einungis um 5% fólks ætti að þurfa hana.
„Þessar háu tölur sýna að það er eitthvað að í skólunum. Annaðhvort er kennslan ekki nógu góð eða ekki nógu mikil eftirfylgni, hvort sem það er heima eða annars staðar. Við þurfum að skoða sérstaklega hverjir þurfi sérstaka aðstoð og auðvitað eiga þeir að fá hana. En það er ljóst að það er ekki svona hátt hlutfall.”
Hermundur segir mikilvægt að hreyfing sé hluti af daglegum skóladegi. „Börn þurfa á áreynslu að halda til að líða vel og gera sitt besta. Þessar hugmyndir og allt annað sem við leggjum til, byggist á rannsóknum. Við vitum t.d. að það er ekki hægt að sitja við lærdóm lengur en 35-40 mínútur í einu og að því loknu þarf fólk 5-10 mínútna pásu til að vera tilbúinn í næsta slag. En þannig er það ekki í dag. Börn eru jafnvel í þrjár kennslustundir, sem eru tveir klukkutímar, í námi í einu án þess að fá nokkurt hlé. Við fullorðna fólkið getum ekki setið í svona langan tíma og unnið, börnin geta það ekki heldur.”
Hvers vegna erum við að krefjast einhvers af börnunum sem við erum ekki tilbúin til að gera sjálf? „Það er kannski vegna þess að það er þægilegt fyrir skipulag skólans og kennslunnar, við setjum börnin ekki í forgang. Þetta er eins og með skólabyggingar; þær eru ekki hannaðar með það í huga hvernig best sé að læra, heldur er oft verið að velta fyrir sér flottri hönnun.”
Hermundur segir að menntamálayfirvöld í Ósló velti því fyrir sér þessa dagana hvernig koma megi betur til móts við þá nemendur sem standi sig vel í námi og hafa þau leitað aðstoðar hans og ráðgjafar í þeim efnum. „Við þurfum að fjölga nördum, það eru þeir sem koma með nýjar hugmyndir og breyta samfélaginu. Hvernig ætlum við að koma til móts við þessa krakka frá unga aldri; stundum er þeim flýtt í skólakerfinu og hvað svo?”
Þessar hugmyndir virðast að mörgu leyti einfaldar í framkvæmd. Sú spurning vaknar hvort skólarnir séu einfaldlega að vasast í of mörgu til þess að geta sinnt grunnhlutverki sínu. Er það svo? „Okkur hættir til að gera hlutina og flókna og kannski er verið að gera sumt of snemma. Hvers vegna þarf t.d. að vera með orðadæmi í 2. bekk þegar mörg börnin eru ekki orðin læs? Hver stjórnar þessu?”
En stangast það sem þú ert að segja ekki á við þá kenningu að ung börn eigi svo auðvelt með að læra og að kenna eigi þeim sem mest? „Nei, þvert á móti. Við erum að byrja á of mörgu í einu. Í staðinn eigum við að gefa okkur góðan tíma í grunnþættina sem eru lestur og stærðfræði og eftir það eru börnin betur undirbúin fyrir áframhaldandi nám.”
Hermundur telur mikla þörf á og hefur áhuga á að koma á fót rannsóknarmiðstöð uppeldisfræðilegra taugavísinda (educational neuroscience) með tengingar við háskóla og háskólafólk hér á landi og einnig við erlenda háskóla sem eru leiðandi a sinu sviði. Miðstöðin myndi sinna rannsóknum, kennslu og fræðslu og hann segir að slíkar miðstöðvar séu t.d. við Harvard- og Cambridgeháskólana. „Faglegi grunnur slíkrar miðstöðvar er samspilið milli gena, taugakerfis, atferlis og umhverfis i þróun og námi,“ segir hann.
„Það sem háir okkur líka er að við erum svolítið einangruð hérna, það er verið að styðjast við ýmsar heimasmíðaðar kenningar í staðinn fyrir kenningar fremstu vísindamanna. Til dæmis virðist það vera þannig í sumum skólum hér á landi að börnin mega sjálf ráða því hvað þau læra og hvernig. Ég er að kenna fullorðnu fólki í háskóla og það fær ekki að velja hvað það lærir. Af hverju er verið að leggja svona ábyrgð á börn? Kannski stendur eitt og eitt barn undir þessu, en það er minnihluti. Það þarf að stjórna námi barna og fá þeim áskoranir við hæfi, þau eiga ekki að velja þær sjálf.”
Skólastefnan Skóli án aðgreiningar hefur verið nokkuð umdeild hér á landi, en svipuð stefna er í norskum grunnskólum. Er þessi stefna að virka sem skyldi?
„Ég hef séð fjölda barna með sérþarfir, sem þessi stefna hentar ekki. Þau þurfa svo góðan ramma í kringum sig og virkilega góða kennara sem þekkja þeirra vandamál, en því miður er ekki alltaf hægt að bjóða upp á þetta í almennum grunnskólum. Ég er ekki að sjá að þessi skólastefna virki eins og hún átti að gera, hvorki hérna né í Noregi. Ég held að það væri best fyrir alla að skoða að koma aftur upp sérskólum. Það eru oft miklar tilfinningar í þessu, en það sem mestu máli skiptir er hvað best sé fyrir barnið.”
Hvers vegna ættum við að geta átt betri skóla en aðrar þjóðir?
„Við höfum allt sem þarf til þess. Við erum fámenn þjóð og ættum að eiga auðveldara en margir aðrir að breyta hlutunum því það er svo auðvelt að ná til allra. Við eigum að tileinka okkur bestu aðferðafræði inni í skólana. Að auki erum við metnaðarfullt og duglegt fólk. Við þurfum að fá umræðuna í gang og fá fleiri einstaklinga til að tjá sig um skóla- og menntamál.
Við höfum komist ágætlega út úr kreppunni og nú er röðin komin að næsta verkefni; að sinna komandi kynslóðum. Veltum því bara fyrir okkur eitt andartak hversu miklum peningum við verjum í skólakerfið. Allir hafa áhuga á betri skólum og við getum vel gert miklu betur. Betri skólar leiða til betra þjóðfélags en það þarf bæði vilja og hugrekki til breytinga,” segir Hermundur.