„Stuðningur við þetta verður auðfenginn hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er að segja að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við mbl.is um vantrauststillögu Þórs Saari á ríkisstjórn Íslands sem verður tekin fyrir á Alþingi þriðjudaginn 26. febrúar.
„Ég lít á hitt, hvenær boðað verður til kosninga og með hvaða hætti skipuð verður starfsstjórn, sem útfærsluatriði. Aðal atriðið er að láta reyna á það hvort ríkisstjórnin hafi meirihlutastuðning frá þinginu til þess að starfa áfram. Ég hef ekki áhyggjur af því að við munum finna skynsamlega leið um hitt,“ sagði Bjarni.
Um þá hugmynd að skipa starfsstjórnina fulltrúum allra flokka á Alþingi sagði hann: „Það slær mig ekkert sérstaklega vel að skipa starfsstjórn með fulltrúum allra flokka. Ég tel að henni verði ekki mikið úr verki. En það er svosem aldrei hugmyndin með starfsstjórnum að þær verði mjög verkmiklar. Það er miklu stærra mál hvert hlutverk starfsstjórnarinnar er en hvernig hún er skipuð.“