Um 20.000 skilvísir viðskiptavinir Íslandsbanka munu næstkomandi mánudag fá endurgreidda 30% af þeim vöxtum sem þeir greiddu af húsnæðislánum og öllum almennum skuldabréfalánum hjá bankanum á síðasta ári. Undanskilin eru þau húsnæðislán sem verða endurreiknuð í samræmi við dóma Hæstaréttar um fullnaðarkvittanir.
Heildarupphæð endurgreiðslunnar er um 2,5 milljarðar króna en að meðaltali mun hver viðskiptavinur fá endurgreiddar um 120.000 krónur. Endurgreiðslan getur að hámarki numið 500.000 krónum á hvern viðskiptavin.
Upphæðin verður lögð inn á sparnaðarreikning í nafni viðskiptavinar, Vaxtaþrep 30 dagar. Reikningurinn er bundinn og ber stighækkandi vexti eftir fjárhæð innstæðu. Viðskiptavinir geta tekið út af reikningnum á einfaldan hátt í gegnum Netbanka Íslandsbanka með 30 daga fyrirvara. Vextir á reikningnum eru hærri en á almennum óbundnum innlánsreikningum og eru greiddir út mánaðarlega inn á ráðstöfunarreikning viðskiptavinar. Því er hægt að ráðstafa þeim að vild í lok hvers mánaðar án þess að hreyfa höfuðstólinn.
Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir að með því að greiða upphæðina inn á Vaxtaþrep 30 daga vilji bankinn leggja grunn að sparnaði viðskiptavina sinna en hafa ber i huga að í sumum tilvikum getur besti sparnaðurinn falist í að greiða niður skuldir sem bera háa vexti. Viðskiptavinir eru hvattir til að panta sér viðtal hjá ráðgjafa í útibúum Íslandsbanka til að fara yfir hvaða sparnaðarleiðir henta þeim best.
„Við vonum að með þessari endurgreiðslu geti margir lagt grunn að sparnaði eða greitt niður skuldir. Við viljum þakka viðskiptavinum fyrir viðskiptin á undanförnum árum og þá tryggð sem þeir hafa sýnt okkur. Við finnum fyrir ákveðnum þáttaskilum í umhverfi okkar og vonum að viðskiptavinir okkar geti horft bjartari augum til framtíðar,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í fréttatilkynningu.