Segir sótt að öldruðum úr tveimur áttum

Við upphaf landsfundar Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll í dag.
Við upphaf landsfundar Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Bankarnir bjóða nú óverðtryggð lán en þau bera háa vexti og eru til tiltölulega skamms tíma. Til að lækka vextina og tryggja framboð á óverðtryggðum lánum með föstum langtímavöxtum þarf stöðugleika,“ sagði Bjarni Benediktsson í setningarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.

Þá sagði hann: „Engin lög, engar reglugerðir, engin boð eða bönn geta komið í stað stöðugleikans. Því miður verður óstöðugleikinn ekki bannaður. Ekki frekar en vont veður eða vinstri stjórnir. Mér finnst skipta mestu að fólki eigi hér raunverulegt val. Það er í anda sjálfstæðisstefnunnar, að treysta fólki til að velja. Höfum einnig hugfast að daginn sem við bönnum verðtryggð lán verður erfiðara að verja lífeyrinn okkar fyrir verðbólgunni.“

Vill forgangsraða upp á nýtt í þágu heilbrigðisþjónustu

„Við þurfum að forgangsraða upp á nýtt til að geta tryggt öryggi og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Það er grundvallarhagsmunamál okkar allra,“ sagði Bjarni.

Þá gerði hann málefni aldraðra að umfjöllunarefni sínu og sagði: „Hvernig ævikvöld við búum öldruðum og hvernig við hlúum að þeim sem þurfa á aðstoð að halda er mælikvarði á gæði samfélagsins.

Samanlagt hefur ríkisstjórnin dregið úr útgjöldum til málefna eldri borgara um tæpa 13 milljarða frá því hún tók við. Í upphafi voru þetta sagðar tímabundnar aðgerðir en nú undir lok kjörtímabilsins bólar ekkert á aðgerðum til að rétta hlut þessa hóps.“

Segir aldraða standa undir 10% varanlegs niðurskurðar

Bjarni sagði að þegar metnar væru breytingar á fjárlögum innan líðandi kjörtímabils kæmi í ljós að aldraðir standi undir um 10% varanlegs niðurskurðar í ríkisrekstrinum.

„Aldraðir hafa að sjálfsögðu ekki, frekar en aðrir þjóðfélagshópar sloppið við skattastefnuna og þannig er sótt að þeim úr tveimur áttum. Verkefni okkar verður að draga aftur úr tekjutengingum og hjálpa fólki til sjálfshjálpar með því að leyfa öllum yfir 70 ára aldri að afla sér tekna án skerðinga. Hækka þarf að nýju lífeyrisgreiðslur og eyða þeirri mismunun sem birst hefur í aðgerðum stjórnvalda undanfarin ár,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka