Vilja endurskipuleggja íbúðalánamarkaðinn

Bjarni Benediktsson við setningu 41. Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöllinni í …
Bjarni Benediktsson við setningu 41. Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöllinni í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Það þarf að örva atvinnulífið, lækka skatta og vinda ofan af flækjustiginu. Við munum byrja á tryggingagjaldinu og halda svo áfram að greiða fyrir fjárfestingum í atvinnulífinu, og taka til í ríkisfjármálunum – hætta skuldasöfnun,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í setningarræðu sinni á 41. Landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem hófst á sjötta tímanum í dag.

„Við þurfum aðgerðir til að minnka hagsveiflur og draga úr verðbólgu. Þannig hefjum við nýtt framfaraskeið,“ sagði Bjarni og að leiðin væri ekki að leggja sífellt auknar byrðar á það sem vel gangi.

„ Við höfum fjölmörg dæmi um að útgerðarfyrirtæki þurfi að standa skil á hærra veiðigjaldi en sem nemur heildarhagnaðinum. Alvarleg hugsanavilla hrjáir þá sem reyna að réttlæta slíkt,“ sagði Bjarni.

„Þetta er leið Sjálfstæðisflokksins“

„Við munum skapa íslensku efnahagslífi og atvinnuvegum hvetjandi, örugg og traust starfsskilyrði og við ætlum að eyða pólitískri óvissu um grunnatvinnuvegina. Þá tekur atvinnulífið við sér „eins og jurt sem stóð í skugga en hefur aftur litið ljós“ – eins og Björgvin Halldórsson syngur svo fallega.

Á grundvelli þessara hornsteina hefst nýtt og kraftmikið framfaraskeið í þágu heimila landsins þar sem stöðugleiki og vöxtur verða aðalsmerkin. Þetta er leið Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Bjarni.

„En bráðum er biðin á enda“

„Það sem stendur fjölskyldum og fyrirtækjum fyrir þrifum, er ekki skortur á tillögum, heldur aðgerðarleysi þeirra sem ráða för í þinginu. En bráðum er biðin á enda. Þá loksins gefst tækifæri til að stíga fram og létta undir með heimilunum í landinu.

Við ætlum að ráðast að rót vanda heimilanna með skulda- og skattalækkunum. Við ætlum að lækka tekjuskattinn að nýju og einfalda skattkerfið, hætta með þriggja þrepa kerfi.

Til að létta greiðslubyrðina og auðvelda fjölskyldum að lækka húsnæðislánin munum við veita sérstakan skattaafslátt vegna afborgana af lánum til eigin íbúðakaupa og við munum nýta skattkerfið til að hjálpa fólki að lækka húsnæðislán sín.

Skattaafsláttur er í dag veittur til að leggja fyrir í séreignarsparnað. Ég vil veita þeim sem frekar kjósa að greiða inn á húsnæðislánin sín þennan sama afslátt – varanlega. Það mun létta áhyggjum af fjölmörgum um hver mánaðamót,“ segir í setningarræðu Bjarna.

Fólki verði gert heimilt að skila lyklum

„Við ætlum að gera fleira í húsnæðismálunum. Við munum endurskipuleggja íbúðalánamarkaðinn og tryggja fólki val um lánakerfi. Markmiðið er að fólk geti fengið sambærileg lán og hjá nágrannaþjóðunum, sanngjarna vexti til langs tíma, óverðtryggt, segir Bjarni og einnig: „Við viljum ekki að fólk sé gert upp vegna skulda sem það hefur stofnað til vegna eigin íbúðarhúsnæðis. Sjái skuldari sér engan veginn fært að standa undir rekstri húsnæðis síns, jafnvel með ofangreindum úrræðum, á honum að vera heimilt að skila lyklunum og losna undan skuldum sínum, án þess að það leiði til gjaldþrots,“ Sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka