Forystumenn Sjálfstæðisflokksins voru inntir svara við því í fyrirspurnartíma sem nú stendur yfir á landsfundi flokksins hvort til staðar væri varaáætlun, plan b, vegna afskipta Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, af viðskiptalífinu fyrir bankahrun. Var þar skírskotað til mögulegra áhrifa á fylgi flokksins og formennsku Bjarna í stjórn N1.
Bjarni svaraði fyrirspurninni og sagði óþarfa að hafa áhyggjur af fylgi Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefði um langt skeið verið með afgerandi forskot á aðra stjórnmálaflokka í skoðanakönnunum undir hans forystu. Hann sagði afskipti hans af viðskiptum vissulega hafa tengst hruninu enda hefði fyrirtækið sem hann hafi setið í stjórn fyrir farið illa út úr hruninu eins og þúsundir annarra íslenskra fyrirtækja sem ekki hefðu borið ábyrgð á því.
Kristján Þór Júlíusson, 2. varaformaður Sjálfstæðisflokksins, kom lauslega inn á fyrirspurnina síðar í umræðunni og sagði flokkinn hvorki starfa eftir plani a eða plani b heldur plani D.