Engin lausn að banna verðtryggingu

Verðtryggingin kom talsvert til umræðu þegar fulltrúar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins báru fram spurningar til forystumanna flokksins í dag. Forystumennirnir voru sammála um að bann við verðtryggingu lána leysti engan vanda heldur þyrfti að bregðast við undirliggjandi vanda í efnahagskerfinu sem skapaði þann vanda sem verðtryggingunni væri ætlað að bregðast við.

Þannig sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmi suður, að hún teldi ekki rétt að banna verðtrygginguna. Það væri ódýr lausn að hennar mati að telja slíkt bann vera lausn og undir það tók Illugi Gunnarsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík norður. Illugi benti á að stóra verkefnið framundan í þeim efnum væri að halda verðbólgunni niðri. Gagnrýndu þau framsóknarmenn fyrir að kalla eftir afnámi verðtryggingarinnar en útlista ekki nákvæmlega með hvaða hætti það ætti að gerast.

Þá sagði Illugi að það væri ekki hlutverk stjórnmálamanna að hafa vit fyrir fólki um það hvers konar lán það ætti að taka. Það gæti hentað sumum að taka verðtryggð lán og því væri rangt að loka á þann valkost. Ragnheiður Elín Árnadóttir, oddviti sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, tók undir þetta og sagði að skoða þyrfti ágalla þess kerfis sem við líði væri hér á landi og tryggja að það væri sambærilegt við það sem gerðist í kringum okkur. Meðal annars gengi ekki að lánveitandi væri alltaf tryggður í bak og fyrir en ekki lántakandinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert