„Ég vil þakka fyrir mig“

Ólöf Nordal
Ólöf Nordal Kristinn Ingvarsson

„Ég er hingað komin til að kveðja. Ég vil þakka fyrir mig,“ sagði Ólöf Nordal, fráfarandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í kveðjuræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.

„Ég ætlaði að vera með ykkur svo miklu lengur,“ sagði Ólöf. „En enginn á að halda ... að hann hafi nokkra stjórn á elfur lífsins... Lífið sjálft tekur völdin... Ég held að það sé okkur öllum hollt að líta aldrei á neitt sem gefið,“ sagði Ólöf.

„Flokkurinn stendur á tímamótum... Öllu skiptir að lausnir Sjálfstæðisflokksins verði ráðandi við stjórn landsins á komandi árum,“ sagði Ólöf og vék að þeim tækifærum sem væru til að styrkja hagkerfið, m.a. með því að lækka skatta á heimili og fyrirtæki.

Brjótast þurfi út úr þeim haftabúskap sem Ísland hafi búið við á síðustu árum.

Mikilvægasta aðgerðin væri að mæta hagsmunum heimilanna. „Hvaða aðgerð getur verið almennari en sú að byggja undir hagvöxt?“ spurði Ólöf og vék að stjórnmálamenningu síðustu ára.

„Við verðum að huga vel að opinberri umræðu. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við undir trumbuslætti og mótmælaöldu,“ sagði Ólöf og rifjaði upp að vorið 2009 hefði Jóhanna lofað samstöðu, þvert á sundrungu síðustu ára. 

Þá sagði hún landsdómsmálið ríkisstjórninni til ævivarandi skammar.

Neikvæð áhrif kommentakerfa

Ólöf gerði bloggmenninguna að umtalsefni og hvernig nær látlaust væri ráðist á suma einstaklinga með ljótu orðfæri. „Við eigum að taka til varna og segja hingað og ekki lengra.“

Sagði Ólöf svo að tilteknir fjölmiðlar hefðu veist að Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, á ómaklegan hátt. Sjálfstæðisflokkurinn yrði að berjast gegn persónulegum árásum, dylgjum og rógi.

Sagði hún kommentakerfi bloggsíðna hafa áhrif á það hvernig opinber umræða þróast. Þessi ómenning geti leitt til þess að sumt fólk veigri sér við að taka þátt í opinberri umræðu. „Það má ekki verða þannig að fólki finnist ekki borga sig að taka þátt í henni.“

Ólöf vitnaði í Ólaf Thors:

„Við minnumst þess að með hverjum sigri í sjálfstæðisbaráttuni hefur þjóðinni vaxið þrek og djörfung.“

Ólöf sagði svo Sjálfstæðisflokkinn standa saman í þágu allra einstaklinga og heimila.

Andstæðingar flokksins byggi hins vegar allt á tortryggni og vantrausti. Við höfnum „sundurlyndisfjandandum“, sagði Ólöf.

Berjast fyrir réttlátu samfélagi

Hún vék svo að því sem sameini Sjálfstæðisflokkinn.

„Við erum ekki endilega sammála um allt og við þurfum ekki að vera það en við deilum grundvallarlífsskoðunum. Við berjumst fyrir réttlátu samfélagi og við vitum að framundan er betri tíð með blóm í haga.“

Ólöf þakkaði síðan fyrir þann stuðning sem henni hefði verið sýndur. Hún óskaði svo forystu flokksins velfarnaðar og alls hins besta.

„Ég færi mig yfir í bakvarðasveitina. Ég þakka fyrir mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka