Sjálfstæðiskonur líklega aldrei öflugri

Aldís Hafsteinsdóttir er bæjarstjóri í Hveragerði.
Aldís Hafsteinsdóttir er bæjarstjóri í Hveragerði. Friðrik Tryggvason

„Þá er augljóst að kvennasveit flokksins er orðin mjög sterk; sennilega hefur hún aldrei verið sterkari,“ skrifar Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, um sterka stöðu kvenna í Sjálfstæðisflokknum. Tilefnið er m.a. framboð Aldísar Hafsteinsdóttur til 2. varaformanns flokksins.

Aldís tilkynnti framboð sitt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag en eins og mbl.is hefur sagt frá sækist Kristján Þór Júlíusson einnig eftir embættinu. Þá sækist Hanna Birna Kristjánsdóttir eftir varaformannssætinu eins og mbl.is hefur líka sagt frá.

Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður árið 1929 og skrifar Styrmir á vefsetrið Evrópuvaktina að sjaldan eða aldrei hafi flokkurinn haft á að skipa jafn öflugri sveit kvenna.

„Framboð Aldísar Hafsteinsdóttur til 2. varaformanns kom á óvart - og þó. Eins og að var vikið hér á þessum vettvangi í gær er kominn fram mjög öflugur hópur forystumanna í Suðurkjördæmi og þess vegna þarf það kannski ekki að koma neinum í opna skjöldu að einn eða öllu heldur ein úr þeirra hópi gefi kost á sér í eina af þremur æðstu trúnaðarstöðum flokksins.

Þá er augljóst að kvennasveit flokksins er orðin mjög sterk - sennilega hefur hún aldrei verið sterkari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert