„Aðeins of mikið fyrir morgunkaffi“

Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjórar Landsbankans
Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjórar Landsbankans Kristinn Ingvarsson

„Þetta er nú aðeins of mikið fyrir morgunkaffi á mánudegi,“ sagði Skúli Magnússon héraðsdómari þegar lögmaður nokkurra erlendra tryggingafélaga lagði fram bókun upp á 24 síður við fyrirtöku í skaðabótamáli slitastjórnar Landsbankans á hendur fyrrverandi stjórnendum bankans og tryggingafélögunum.

Í málinu, sem raunar eru tvö; Grettismálið og Straumsmálið, eru þeir Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjórar Landsbankans, krafðist um tæpa 40 milljarða í skaðabætur. Látið er reyna á stjórnendaábyrgð sem bankinn keypti og var tryggingafélögum einnig stefnt fyrir dóm. Í öðru málinu er Elínu Sigfúsdóttur, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, einnig stefnt.

Aðallega var tekist á um bókanir við fyrirtöku málsins í morgun og hafði Skúli Magnússon héraðsdómari litla þolinmæði fyrir látlausum bókunum milli aðila. „Aðilar máls í einkamálum hafa ansi mikið um meðferð málanna að segja og ekki kviknar á viðvörunarljósum dómara nema fram komi mótmæli. En þegar bókun kemur fram upp á 24 blaðsíður fara bjöllurnar í gang,“ sagði Skúli og synjaði framlagningu bókunarinnar sem hann taldi ekkert annað en greinargerð.

Skúli skýrði afstöðu sína þá enn frekar. „Þetta mál er að komast út í hreina vitleysu. Ég hafna framlagningu þessa skjals og lít svo á að hún sé ekki í samræmi við ákvæði laga um meðferð einkamála þar sem heimild er til að fá stuttar athugasemdir færðar til bókar.“

Í framhaldinu sagðist hann ætla að taka önnur skjöl sem lögð hafa verið fram í málinu til sérstakrar athugunar. 

Síðar við fyrirtökuna lagði lögmaður slitastjórnar Landsbankans einnig fram bókun og var sú rúmar tuttugu síðar. Fékk hún sömu meðferð og fyrri bókunin, þ.e. að synjað var framlagningu hennar.

Frávísunarkrafa verður lögð fram

Lögmenn Sigurjóns og Halldórs mótmæltu einnig framlagningu skjalanna og sögðu gagnaframlagningu í undanförnum þinghöldum hafa breytt grundvelli málsins. Lögmaður Sigurjóns boðaði kröfu um frávísun málsins og verður hún lögð fram í næsta þinghaldi, 11. mars nk. Málflutningur um frávísunarkröfuna verður þó ekki fyrr en í næsta þinghaldi eftir það.

Hins vegar munu aðilar máls viðra sjónarmið sín í næsta þinghaldi vegna kröfu slitastjórnar um að fá ráðgefandi álit EFTA-dómsstólsins á ákveðnum lagalegum atriðum í málinu. Talið er að það gæti tafið málið um tæpt ár að fá ráðgefandi álit frá EFTA-dómstólnum. 

Jafnframt er til álita í málinu að fresta því vegna opinberrar rannsóknar sérstaks saksóknara á athöfnum Sigurjóns og Halldórs í bankastjóratíð sinni hjá Landsbankanum. Hins vegar mun dómari ekki taka afstöðu til þeirrar beiðni fyrr en gagnaöflun í málinu er lokið.

Lögmaður tryggingafélaganna nefndi að afar erfiðlega gangi að afla gagna. Fyrirséð er því að gagnaöflun muni taka langan tíma og þurfi í einhverjum tilvikum að fara fyrir úrskurðanefnd um upplýsingamál eða dómstóla. Til dæmis hafi sérstakur saksóknari afar litlu svarað til um rannsókn sína.

Þannig fyrst og fremst mátti ráða það af fyrirtökunni í morgun að mörgum álitaefnum er enn ósvarað og alls óvíst hvenær málið verður tækt til aðalmeðferðar, ef það fer svo langt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert