Vegagerðin hefur ákveðið að færa þungatakmarkanir á Vestfjarðavegi 60 og Djúpvegi 61, sem nú er aðeins 7 tonn, upp í 10 tonn. Það þýðir að flutningabílar geta farið af stað um vegina, en þó ekki fulllestaðir.
Þessar ströngu þungatakmarkanir voru settir á á laugardaginn, en þeim hefur nú verið aflétt.
Veigar Jónsson, afgreiðslustjóri Flytjanda á Ísafirði, segir í samtali við mbl.is, að flutningabílar sem beðið hafa á Vestfjörðum um helgina séu nú að leggja af stað. Hann segir að bílarnir fari ekki fulllestaðir. Hann segir að 10 tonna öxulþungi sé venjulegur á vegum landsins á vorin.
Veigar segir að allir stórflutningar á Vestfjörðum hafi stöðvast um helgina þegar Vegagerðin fór með öxulþungan niður í 7 tonn. Þetta hafi bæði átt við um flutninga með fisk og almennan flutning.