Flóðaviðvörun fyrir Hvítá og Ölfusá

Ölfusá.
Ölfusá. mbl.is

Vatnavextir eru á Vesturlandi, Suðurlandi og Suðausturlandi vegna mikilla rigninga og hlýinda undanfarna daga. Miklir vatnavextir eru á efra vatnasviði Hvítár og einnig eru hliðarár í örum vexti. Spáð er áframhaldandi rigningu í kvöld og því má búast við auknum vatnavöxtum á vatnasviði Hvítár og Ölfusár. Flóðið mun koma fyrst fram í Auðsholtshverfi, vestan við Flúðir, síðan á Skeiðum og svo á Dagmálahólma, norðan Selfoss. Einnig má búast við flóði við Kaldaðarnes, sunnan Selfoss.

Þetta kemur fram í viðvörun frá Veðurstofu Íslands.

Bændum með búfénað nálægt Hvítá og Ölfusá er ráðlagt að færa búféð frá ánum í dag.

Jafnframt er flóðahætta á Suðurlandi og Suðausturlandi í Hverfisfljóti og Djúpá.

Ferðafólki og öðrum er ráðlagt að halda sig fjarri ánum. Frekari upplýsingar munu berast ef aðstæður breytast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert