Fólkinu sem sat fast á þaki bifreiðar í miðri á við Landmannalaugar hefur nú verið bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Fimm voru í bílnum.
Björgunarsveitarmenn voru á leiðinni á vettvang einnig, en erfitt er að komast á svæðið vegna krapa. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort reynt verið að ná bifreiðinni úr ánni nú í kvöld.
Bifreiðin mun hafa verið vel búin, á 44 tomma dekkjum, eftir því sem heimildir herma. En miklir vatnavextir eru í ám á svæðinu og raunar víðar í ám á öllu Suðurlandi.
Uppfært kl. 19:34 eftir fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni:
Landhelgisgæslunni barst kl. 17:08 beiðni um útkall þyrlu eftir að tilkynning barst til 112 um fólk í sjálfheldu í Landmannalaugum. Fimm manns voru í bifreið sem ekið var út í á. Fór bíllinn á kaf og beið fólkið eftir björginni á þaki bílsins.
Þyrla LHG fór í loftið kl. 17:35 og kom að staðnum kl. 18:46. Fólkið var komið um borð í þyrluna kl. 18:58 og var þá flogið beint til Reykjavíkur. Áætlað er að lenda við Landspítalann í Fossvogi kl. 19:46.
Fimm manns föst á þaki bifreiðar