Framburður Guðlaugs Þórs ekki talinn hafa þýðingu

Guðlaugur Þór og Ágústa Johnson. Gunnar Andersen vildi að þau …
Guðlaugur Þór og Ágústa Johnson. Gunnar Andersen vildi að þau bæru vitni í málinu. Friðrik Tryggvason

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði kröfu verjanda Gunnars Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, um að fá að leiða fyrir dóminn fjögur tiltekin vitni. Framburður þeirra var ekki talinn hafa þýðingu við úrlausn um sekt Gunnars eða sýknu í málinu.

Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur Gunnari og Þórarni Má Þorbjörnssyni, starfsmanni Landsbankans, sumarið 2012. Þeir eru ákærðir fyrir brot á þagnarskyldu með því að brjóta bankaleynd. Gunnar er talinn hafa nýtt sér aðstöðu sína til að ná í upplýsingar um fjármál Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í gegnum Þórarin Má. Þeim gögnum var komið til Ársæls Valfells, lektors við Háskóla Íslands, sem aftur kom þeim til DV sem birti frétt byggða á gögnunum.

Verjandi Gunnars krafðist þess að fá að leiða fyrir dóminn Hauk Þór Haraldsson, sem var yfir reikningshaldi Landsbankans, Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, Guðlaug Þór og eiginkonu hans Ágústu Johnson. Eins og greint frá á mbl.is hugðist verjandi Gunnars varpa á ljósi á ákveðin atriði varðandi viðskipti félags Guðlaugs Þórs við Landsbankann. Þar grunar Gunnar að hafi verið um refsiverða háttsemi að ræða.

Í úrskurði héraðsdóms segir að sönnunarfærslan sem fyrirhuguð er af hálfu verjanda Gunnars lúti ekki að sakarefni málsins, sem er sú háttsemi sem Gunnari er gefin að sök í ákæru. „Er sú sönnunarfærsla því tilgangslaus að mati dómsins,“ segir í úrskurðinum.

Hæstiréttur staðfesti svo úrskurðinn í dag og í dómi réttarins er komið inn á það að krafa verjanda Gunnars sé meðal annars studd þeim rökum að framburður umræddra vitna geti verið til stuðnings þeirri málsástæðu að almannahagsmunir hafi réttlætt það að ætlaðri þagnarskyldu Gunnars yrði vikið til hliðar.

„Úr því að [Gunnar] taldi að viðskipti þau sem vísað er til í ákæru hafi falið í sér refsiverða háttsemi voru eðlileg viðbrögð af hans hálfu að kæra þá háttsemi til viðeigandi stjórnvalds sem hann og gerði. Slíkur grunur gat hins vegar ekki réttlætt að [Gunnar] beitti sér fyrir að trúnaðarupplýsingum um viðskiptin yrði komið á framfæri við fjölmiðil eins og honum er gefið af sök,“ segir rétturinn og einnig að verjandi Gunnars hafi ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að framburður vitnanna geti haft þýðingu við úrlausn um sekt hans eða sýknu í málinu né heldur við ákvörðun refsingar Gunnars ef á reynir.

Gunnar Andersen.
Gunnar Andersen. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka