„Við erum með efnivið í flóð. Það vex ennþá í Hvítá við Fremstaver, mælinum sem við erum með fyrir ofan Gullfoss,“ sagði Óðinn Þórarinsson hjá Veðurstofu Íslands en flóðviðvörun var gefin út í dag við Ölfusá og Hvítá.
Hann segir flóð vera á öllu vatnasviði beggja áa og nefndi hliðarárnar Tungufljót, Brúará og Stóru-Laxá. Þá segir hann mikið vatn í Soginu líka. Hvítá og Sog sameinast í Ölfusá sem rennur um Selfoss.
„Við eigum von á því að fá töluvert vatnsmagn þarna niður þegar þetta leggst allt saman. En það gerist ekki fyrr en um hádegi á morgun. Veðurkortin segja okkur að það bæti ennþá í rigningu,“ segir Óðinn.
Hann segir því meira geta bæst í árnar og að flóð gæti orðið nokkuð stórt. „En við erum samt með töluvert miklu minna flóð en var fyrir jólin 2006. Þetta nær ekki neinu slíku,“ sagði Óðinn.