Ekkert kjöt reyndist vera í nautaböku frá Gæðakokkum í Borgarnesi sem sögð var innihalda 30% nautahakk í fyllingu, sem átti að vera helmingur af þyngd vörunnar.
Rannsókn Matvælastofnunar á kjötinnihaldi 16 íslenskra matvara sýnir að Gæðakokkar í Borgarnesi hafa framleitt og markaðssett tvær vörur sem sagðar eru innihalda nautakjöt en niðurstöður rannsóknarinnar sýna að svo er ekki. Engin vara sem skoðuð var í rannsókninni uppfyllti allar kröfur um merkingar.
Engin vara uppfyllti kröfur um merkingar
Matvælastofnun lét nýverið rannsaka kjötinnihald 16 íslenskra matvara á markaði til að kanna hvort þær innihéldu hrossakjöt án þess að þess væri getið á umbúðum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að hrossakjöti hafði ekki verið blandað í vörurnar. Hins vegar kom í ljós að engin þessara vara uppfyllti allar kröfur um merkingar og reyndust tvær vörur ekki innihalda nautakjöt þrátt fyrir merkingar þar um.
Ekkert nautahakk í hakkbollum
Lambahakkbollur framleiddar af Gæðakokkum fyrir Kost og sagðar innihalda lamba- og nautakjöt innihéldu eingöngu lambakjöt. Matvælastofnun hefur vísað þessum málum til rannsóknar og ákvörðunartöku hjá þeim heilbrigðiseftirlitssvæðum sem fara með opinbert eftirlit með viðkomandi fyrirtækjum. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hefur þegar farið fram á innköllun á nautabökum frá Gæðakokkum og verða frekari aðgerðir vegna málsins teknar í framhaldinu.
Engin vara uppfyllti allar kröfur um merkingar, en alvarlegt er þegar neytendur geta ekki treyst því að heiti vöru gefi rétta mynd af samsetningu hennar og það sama á við þegar innihaldslýsingar eru rangar eða veita ekki fullnægjandi upplýsingar um samsetningu matvöru. Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga munu fylgja eftir málum vegna vanmerkinga sem í ljós komu við skoðun umbúða hlutaðeigandi vörutegunda. Rétt er að taka fram að í sumum tilvikum var aðeins um minniháttar athugasemdir að ræða.
Kostur tekur vöruna úr sölu
Kostur í Kópavogi hefur sent frá sér tilkynningu um að nautabökurnar og ítölsku lambahakksbollurnar hafi verið teknar úr sölu og þær verði ekki til sölu í Kosti á
meðan innihaldslýsingar veita viðskiptavinum verslunarinnar ekki rétta mynd af innihaldi og samsetningu matvaranna.