Mjólkursamsalan er ekki enn farin að nýta mjólk frá bænum Brúarreykjum í Borgarfirði til vinnslu, en bóndinn fékk í janúar framleiðsluleyfi til bráðabirgða. Bóndinn á Ingunnarstöðum í Reykhólahreppi hefur ekki fengið framleiðsluleyfi og er enn að hella niður mjólk.
Matvælastofnun gaf í janúar út framleiðsluleyfi til bóndans á Brúarreykjum til bráðabirgða. Óskað var eftir að gerðar yrðu tilteknar úrbætur og fékk bóndinn frest til 11. febrúar til að klára þær. Aðstæður á bænum voru skoðaðar í kjölfarið og segir Steinþór Arnarson, lögfræðingur Matvælastofnunar, að verið sé að vinna úr gögnum sem fengust úr þessari skoðunarferð og nokkra daga taki að klára málið hjá stofnuninni.
Eftir að Brúarreykjabúið fékk starfsleyfi að nýju hóf Mjólkursamsalan að kaupa mjólk frá búinu, en fyrirtækið vildi þó ekki nota mjólkin til vinnslu fyrr en búið væri að taka nokkur sýni úr mjólkinni og fá fullvissu um að mjólkin stæðist gæðakröfur. Mjólkin hefur staðist gæðakröfur, en hins vegar vill Mjólkursamsalan ekki fara að nýta mjólkina til vinnslu fyrr en ljóst sé að búið fái varanlegt framleiðsluleyfi frá Matvælastofnun. Mjólkinni frá Brúarreykjum er því enn hellt niður.
Mjólkursamsalan sér um söfnun mjólkur frá öllum bændum á landinu og fyrirtækið telur sig ekki hafa heimild til að hafna að taka bændur í viðskipti sem óska eftir að selja því mjólk.
Staðan á Ingunnarstöðum er óbreytt, en bóndinn missti framleiðsluleyfi 12. nóvember. Hann hefur helt niður allri mjólk síðan. Hann kærði 20. nóvember til atvinnuvegaráðuneytisins ákvörðun Matvælastofnunar að svipta hann starfsleyfi. Ráðuneytið hefur ekki enn svarað erindinu þó að það hafi haft kæruna til umfjöllunar í rúmlega þrjá mánuði. Bóndinn hefur verið tekjulaus í þrjá og hálfan mánuð.