Nýju frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um breytingar á lánafyrirkomulagi Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN, verður dreift nú í vikunni. Verði frumvarpið að veruleika geta námsmenn fengið hluta námslána sinna fellda niður, ljúki þeir námi á tilteknum tíma. Stúdentaráð HÍ fagnar þessari breytingu og segir hana tímabæra.
„Við styðjum frumvarpið heilshugar og höfum beðið þolinmóð eftir því að það yrði að veruleika,“ segir Davíð Ingi Magnússon, lánasjóðs- og hagsmunafulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Hann segir að fulltrúar Stúdentaráðs hafi verið hafðir með í ráðum og setið í nefnd sem fjallaði um breytingar á lánafyrirkomulagi LÍN. Hún hafi skilað af sér í mars í fyrra. „Síðan þá hefur þetta legið inni á borði menntamálaráðherra,“ segir Davíð.
Stúdentaráð sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem væntanlegu frumvarpi er fagnað og eru allir þingflokkar þar hvattir til þess að samþykkja það fyrir þinglok.
„Frumvarpið er afar jákvæð þróun fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna og þessi fyrsti vísir að styrkjakerfi er löngu tímabær. Stúdentaráð Háskóla Íslands telur að þessar breytingar muni auka skilvirkni stúdenta í námi og spara ríkissjóði fjármagn þegar til lengri tíma litið. Vel menntað samfélag er þjóðfélagslega hagkvæmt og stjórnvöld verða að tryggja þann sterka grunn sem til þarf,“ segir í yfirlýsingunni.
Meðal þess sem í frumvarpinu felst er að þeir námsmenn, sem ljúka námi sínu á tilsettum tíma, fá fjórðung námslána sinna felldan niður. Davíð segir að með þessu ætti skilvirkni í námi að aukast og að þetta ætti að vera gerlegt í flestum tilvikum. „Það er engin tilviljun að nám er skilgreint í tilteknum annafjölda. Að öllu jöfnu ætti fólk að geta lokið sex anna námi á sex önnum. En auðvitað geta komið upp ýmsar aðstæður þar sem fólk getur það ekki, enda er gert ráð fyrir undantekningum í þessu frumvarpi.“
Davíð segir að dæmið sé þannig sett upp að sá sem lýkur t.d. 6 anna námi á þeim tíma fái 25% námslána sinna felld niður. Sé sama námi lokið á 7 önnum, þá fái viðkomandi 70% af þessum 25% felld niður.
„Ég held að þetta gæti orðið til þess að búa til jákvæða umbun fyrir námsmenn,“ segir Davíð.