„Þetta eru vörusvik og ekkert annað“

Ekkert nautakjöt reyndist vera í nautabökunni frá Gæðakokkum.
Ekkert nautakjöt reyndist vera í nautabökunni frá Gæðakokkum.

„Þetta eru að sjálfsögðu vörusvik og ekkert annað og á að meðhöndla sem slíkt. Ég velti því upp hvort að það ætti að herða viðurlög við slíku til að koma í veg fyrir að svona gerist,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna um rannsókn Matvælastofnunar sem leiddi í ljós að kjötbökur frá Gæðakokkum innihéldu ekkert kjöt, þrátt fyrir að á umbúðum þeirra standi að fyllingin innihaldi 30% af nautahakki.

Matvælastofnun lét nýverið rannsaka kjötinnihald 16 íslenskra matvæla til að kanna hvort þau innihéldu hrossakjöt án þess að það kæmi fram á umbúðum. Í ljós kom að svo reyndist ekki vera, en tvær vörur reyndust ekki innihalda nautakjöt þrátt fyrir að vera merktar sem slíkar.

Mikilvægt að innihaldslýsingar séu réttar

„Það sem kom líka fram í þessari rannsókn var að allar vörurnar reyndust á einhvern hátt vanmerktar, misalvarlega en í einhverjum tilvikum reyndist innihaldslýsingin ekki rétt. Þetta getur skipt verulegu máli fyrir fólk sem er með ofnæmi eða óþol fyrir tilteknum hráefnum og kaupir inn eftir innihaldslýsingu,“ segir Jóhannes. „Það er mjög mikilvægt að innihaldslýsing matvöru sé rétt.“

Neytendur hætta að treysta 

Hann segir að niðurstöðurnar úr þessari rannsókn Matvælastofnunar kalla á að matvælaeftirlit  í landinu verði hert enn frekar. „Á tyllidögum erum við að slá okkur upp á því að innlendu matvörurnar séu svo góðar. Ef við fáum nánast árlega einhver hneyksli sem varða matvöru, þá endar það með því að neytendur hætta að treysta vörunum. Ég spyr; er það virkilega vilji framleiðenda?“

Eigandi Gæðakokka sagðist í samtali við mbl.is fyrr í dag ekki skilja hvernig á því stæði að ekkert nautakjöt fannst í nautabökum fyrirtækisins. Jóhannes segir þetta varla gilda skýringu. „Ef verið er að nota önnur hráefni heldur en á að gera, þá hlýtur einhver að hafa tekið um það meðvitaða ákvörðun. Þetta gerist ekki óvart, menn gleyma ekki óvart að setja nautakjötið sem átti að fara í matinn.“

Með grófari dæmum hér á landi

Jóhannes segir þetta vera með „grófari dæmum“ sem upp hafi komið hér á landi. „Auðvitað hafa komið upp mál, eins og t.d. þegar fyrir við létum rannsaka nautahakk fyrir þremur árum og þá kom í ljós að menn voru að drýgja það með vatni og bindiefnum. Svo var það málið með iðnaðarsaltið. En ef svona mál eru sífellt að koma upp, þá er matvælaiðnaðurinn í landinu að vinna sjálfum sér svakalegan óleik.“

Refsingin á að vera þyngri

Hvernig þurfti eftirlitið að vera svo vel ætti að vera? „Við skulum hafa það í huga að það er farið út í þessa rannsókn í framhaldi af hrossakjötshneykslinu í Evrópu. Síðan voru vörurnar sem betur fer skoðaðar betur en að athuga einungis hvort þær innihéldu hrossakjöt. Ég tel að þetta kalli á að matvælaeftirlit í landinu taki sýni oftar og hafi það að meginreglu að greina frá niðurstöðum opinberlega með nöfnum og að það séu viðurlög við því að ástunda vörusvik. Auðvitað er það ákveðin refsing fyrir fyrirtæki að þurfa að innkalla vöru, en refsingin á að vera þyngri. Það á að sekta fyrirtæki.“

„Það er verið að sýna neytendum lítilsvirðingu með þessu. Fólk á að geta treyst því sem segir á umbúðum, það er meginatriðið.“

Hrossakjötshneykslið gæti leitt til góðs

Jóhannes segist vona að hrossakjötshneykslið í Evrópu verði til þess að  matvælaiðnaðurinn taki við sér, bæði hér á landi og í nágrannalöndum. Það komi okkur við hvernig eftirlit sé háttað í öðrum löndum. „Við flytjum inn erlendar matvörur í vaxandi mæli og það er líka mikilvægt að eftirlitið sé í lagi erlendis. Við verðum að geta gert sömu kröfur til innlendrar og erlendrar matvöru.“

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.
„Við flytjum inn erlendar matvörur í vaxandi mæli og það …
„Við flytjum inn erlendar matvörur í vaxandi mæli og það er líka mikilvægt að eftirlitið sé í lagi erlendis. Við verðum að geta gert sömu kröfur til innlendrar og erlendrar matvöru,“ segir Jóhannes. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka