Kært verður fyrir blekkingar

Um alla Evrópu er núna verið að rannsaka hvort blekkingum …
Um alla Evrópu er núna verið að rannsaka hvort blekkingum hafi verið beitt í viðskiptum með nautakjöt. FRANK PERRY

Fyrirtækið Gæðakokkar í Borgarnesi verður líklega kært fyrir blekkjandi upplýsingar á vörum. Þetta segir Helgi Helgason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands. Hann segir að gerð verði krafa um að fyrirtækið taki upp nýja vinnsluferla sem tryggi að það kjöt sem á að vera í vörum þess sé þar að finna.

Rannsókn Matvælastofnunar á kjötinnihaldi 16 íslenskra matvara leiddi í ljós að Nautabaka frá Gæðakokkum í Borgarnesi sem sögð var innihalda 30% nautahakk í fyllingu, sem átti að vera helmingur af þyngd vörunnar, innihélt ekkert kjöt.

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands fer með opinbert eftirlit með fyrirtækjum á Vesturlandi og stofnuninni ber að taka ákvörðun um viðbrögð við niðurstöðum rannsóknarinnar. Helgi segir að verið sé að vinna að bréfi sem Gæðakokkar fái á næstu dögum.

„Það eru líkur á að fyrirtækið verði kært fyrir blekkjandi upplýsingar á vörum. Það er í samræmi við matvælalögin þar sem kveðið er á um stjórnvaldssektir við brotum,“ segir Helgi.

„Síðan munum við gera kröfu um að fyrirtækið taki upp nýja vinnsluferla sem tryggi að þetta geti ekki gerst. Það á auðvitað ekki að geta gerst að það vanti aðalefnið í vöruna.“

Helgi segist ekki eiga von á að Gæðakokkar verði svipt starfsleyfi vegna þessa máls. Slíkt komi ekki til álita nema við ítrekuð brot. Heilbrigðiseftirlitið muni hins vegar auka eftirlit með fyrirtækinu á næstunni og leitast við að tryggja að vinnsluferlið og merkingar á vörum fyrirtækisins séu í lagi.

Talsverður kostnaður við DNA-próf

Hjalti Andrason, fræðslustjóri Matvælastofnunar, var spurður hvort niðurstaða þessar rannsóknar gæfi tilefni til að gera frekari rannsóknir hjá matvælafyrirtækjum á næstunni á því hvort innihald varanna sé í samræmi við innihaldslýsingu. Hann segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um það. Menn séu enn að vinna úr þessum niðurstöðum.

Spurður um kostnað við rannsóknir af þessu tagi segir Hjalti að kostnaðurinn ráðist af umfangi rannsóknarinnar. DNA-próf séu talsvert dýr. Það sé einnig hægt að gera ódýrari próf sem svari þeirri spurningu hvaða kjöt sé í vörunni, en það próf svari ekki í hvaða magni einstakar kjöttegundir séu í vörunni. Ekki sé hægt að kanna innihald soðinnar eða hálfsoðinnar kjötvöru nema með DNA-prófi.

Matvælastofnun hefur áður gert rannsóknir á nautakjöti. Árið 2010 birti Matís niðurstöður gæðakönnunar á íslensku nautahakki sem framkvæmd var fyrir Neytendasamtökin og Landssamband kúabænda. Þær sýndu að öðrum kjöttegundum var ekki blandað saman við nautahakkið og sojaprótein greindist ekki.

Ekkert nautakjöt reyndist vera í nautabökunni.
Ekkert nautakjöt reyndist vera í nautabökunni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka