„Það blasir við að það er engin leið að málið klárist á þessu kjörtímabili og þá skiptir miklu að það sé ekki hægt að tala hugmyndina um stjórnarskrárbreytingar í kaf og þess vegna held ég að við eigum að leggja áherslu á að verja ferlið og koma því áfram yfir í næsta kjörtímabil.“
Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is. Hins vegar þurfi að ráðast í þær breytingar nú sem eru annað hvort nauðsynlegar eða augljósar og nefnir fyrirkomulagið við breytingar á stjórnarskrá, ákvæði um að ákveðinn hluti þjóðarinnar geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mál og ákvæði um þjóðareign á auðlindum.
„Ég tel að það skipti máli að um verði að ræða þingsályktun um að þetta ferli varðandi stjórnarskrárbreytingar sem staðið hefur yfir á kjörtímabilinu og leiddi af sér tillögu stjórnlagaráðs sem síðan hefur tekið breytingum, að það verði leitt til lykta á nýju kjörtímabili þannig að heildstæð endurskoðun stjórnarskrárinnar fari fram,“ segir hann.
Spurður hvort reynt yrði að fá sem flesta á bak við slíka þingsályktunartillögu segir Árni Páll að það væri auðvitað mjög æskilegt. Hann segir aðspurður um afstöðu þingflokks Samfylkingarinnar til málsins að skilningur sé innan hans á því „að orðið sé illfært með málið í heild í gegn.“ Síðan sé það einfaldlega útfærsluatriði hvernig verkinu verði áfangaskipt í framhaldinu.
„Ég hef verið að viðra þessi sjónarmið við formenn annarra stjórnmálaflokka. Ég hef farið yfir þetta með formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og við munum leggja upp sameiginlega sýn á frágang mála. Það eru auðvitað ýmis mál í þinginu og það þarf að fara taka ákvörðun um þinglok. Það blasir við að gera það í byrjun næstu viku,“ segir hann ennfremur.