Skraflsfélag Íslands stofnað

Skraflsfélag Íslands hefur verið stofnað á Facebook.
Skraflsfélag Íslands hefur verið stofnað á Facebook.

„Við vildum athuga áhuga almennings og þess vegna var þessi Facebook-síða stofnuð. Þessi félagsskapur er algjörlega óformlegur og engin þannig félagsstörf sem eru í gangi í dag,“ segir Sigurður Arent Jónsson, leikari, sem ásamt frænda sínum, Jóhannesi Benediktssyni, stofnaði Skraflsfélag Íslands á Facebook í síðustu viku.

Fengu áhugann frá ömmu sinni

„Við höfum fengið þennan Scrabble-áhuga frá henni ömmu okkar og þetta hefur lengi verið hálfgert fjölskylduspil. Þegar við hittumst í fjölskylduboðum eða á stærri mótum. Hann Jóhannes kom að máli við mig og viðraði þá hugmynd að halda mót hérna heima af því að okkur grunar að það hafi fleiri áhuga á þessu. Það er í pípunum en ekkert ákveðið í tengslum við það,“ segir Sigurður Arent.

Hann segir Jóhannes spila nokkuð reglulega ásamt vinum sínum en að hann sjálfur grípi meira í þetta þegar það sé uppi á borðum.

-En hvernig hafa viðbrögðin verið?

„Þau hafa bara verið ágæt. Frá því að við fórum í gang með þetta höfum við fengið um 100 „like“ og þetta virðist vera nokkuð „aktíft“. Fólk er að skrafla um tvístafa orðin. Fólk er bæði að skrafla í orði og á borði.“

Stefna á að halda Íslandsmeistaramót

-En markmiðin?

„Aðal markmiðið er kannski fyrir Scrabble-áhugafólk að kynnast og mögulega kynnast einhverjum nýjum sem maður getur þá hitt og spilað við. Í framtíðinni þá stefnum við á það að halda eitt stykki Íslandsmeistaramót sem verður þá auglýst síðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert