Enn sitja sjö Íslendingar í nokkrum fangelsum í nágrenni Kaupmannahafnar í Danmörku vegna gruns um aðild að stórfelldu smygli á amfetamíni. Mennirnir hafa verið í haldi síðan um miðjan september og farið verður fram á framlengingu þess hinn 14. mars næstkomandi.
Þetta segir Steffen Thaaning Steffensen, sem starfar hjá deild skipulagðra glæpa hjá dönsku lögreglunni, í samtali við mbl.is. Hann segir að rannsókn málsins gangi með ágætum, en getur að öðru leyti lítið tjáð sig um málið. „Við munum fara fram á framlengingu, en það er auðvitað dómara að ákveða hvað verður,“ segir hann.
Um talsvert magn er að ræða. „Þetta er annars vegar 34 kíló og hins vegar erum við að tala um 61 kíló,“ segir Steffensen. „Þetta er nokkuð mikið, en alls ekki það mesta sem við höfum tekið hérna.“