Páll Heimisson, fyrrverandi starfsmaður íhaldshóps Norðurlandaráðs sem ákærður hefur verið fyrir umboðssvik, neitaði sök við fyrirtöku málsins í morgun. Honum er gert að sök að hafa dregið að sér 19,4 milljónir króna af kreditkorti á kennitölu Sjálfstæðisflokksins.
Páll starfaði sem ritari íhaldshópsins og var ekki starfsmaður Sjálfstæðisflokksins sem slíks en hafði þó starfsaðstöðu í Valhöll. Kreditkortið var auk þess skráð á Sjálfstæðisflokkinn og var honum ætlað að greiða með því útgjöld tengd störfum hópsins.
Hvarf sporlaust í New York
Sjálfstæðisflokkurinn kærði Pál til lögreglu árið 2011 þegar grunsemdir um misferli vöknuðu við athugun á reikningum vegna starfsemi íhaldshópsins. Hvarf Páll þá sporlaust í New York og var utanríkisráðuneytið fengið til aðstoðar við að hafa uppi á honum.
Embætti sérstaks saksóknara gaf út ákæru á hendur Páli 18. desember og er hann sakaður um að hafa notað kreditkortið í 321 skipti fyrir um 19 milljónir króna á árunum 2009-2011. Tók hann sjaldnast minna út úr hraðbönkum en 100 þúsund krónur í einu. Hæsta einstaka færslan nam 510 þúsund krónum og var framkvæmd í Vínarborg 7. september 2010 hjá úrsmíðameistara.
Sjálfstæðisflokkurinn gerir þá kröfu að Páll verði dæmdur til að greiða flokknum upphæðina alla auk vaxta. Að sögn Guðrúnar Sesselju Arnardóttur verjenda Páls neitaði hann sök við fyrirtöku málsins í morgun. Greinargerð verður skilað inn þann 16. apríl en aðalmeðferð málsins hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 3. maí.
Tók út 100 þúsund krónur 82 sinnum