Andlát: Árni Vilhjálmsson

Árni Vilhjálmsson.
Árni Vilhjálmsson.

Árni Vilhjálmsson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, lést í Reykjavík í gær, þriðjudag, 80 ára að aldri.

Árni fæddist 11. 5. 1932 og voru foreldrar hans Guðríður Sigurðardóttir frá Stokkseyri og Vilhjálmur Árnason skipstjóri. Systur hans eru Sigríður og Kristín.

Árni lauk stúdentsprófi frá MR 1951, prófi í viðskiptafræði við HÍ 1954, einnig stundaði hann nám og kennslu við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og síðar við Óslóarháskóla. Hann vann á sjötta áratugnum við hagrannsóknir hjá Framkvæmdabankanum og í viðskiptaráðuneytinu. Einnig var hann stundakennari við H.Í. Árin 1960-1961 var Árni hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum í Washington en 1961 varð hann prófessor við viðskipta- og hagfræðideild HÍ. Hann var auk kennslustarfa sinna umsvifamikill þátttakandi í atvinnulífinu til dauðadags og sat í stjórnum ýmissa fyrirtækja. Hann var formaður stjórnar Háskólabíós 1963-1978, sat í bankaráði Landsbanka Íslands 1974-1988 og í stjórn Verðbréfaþings, var stjórnarformaður Kassagerðarinnar, í stjórn Flugleiða og Ármannsfells, í stjórn Hampiðjunnar, Nýherja og Venusar. Hann var formaður stjórnar Hvals hf. frá 1979 og formaður stjórnar Granda frá 1988. Einnig var Árni skipaður í fjölda nefnda.

Árni sendi frá sér bækur og bæklinga auk ritgerða og blaðagreina um viðskiptaleg efni. Árni var heiðursdoktor frá viðskipta- og hagfræðideild Háskólans og heiðursfélagi í FVH.

Eftirlifandi eiginkona Árna er Ingibjörg Björnsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Listdansskóla Íslands. Þau eignuðust þrjár dætur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka