„Það er ekki stætt úti,“ segir Haraldur Hlöðversson, lögregluþjónn í Vestmannaeyjum. Meðalvindur á Stórhöfða fór upp fyrir 40 m/sek í morgun. Járnplötur hafa verið að losna á þökum og bílar hafa fokið til á götum.
„Við höfum fengið nokkrar tilkynningar um lausar járnplötur. Við reiknum allt eins með að við eigum eftir að fá fleiri tilkynningar þegar líður á daginn. Það eru bílar að fjúka til og hver utan í annan. Það má því segja að það sé ekki hundi út sigandi. Eina vitið er að halda sig innandyra,“ segir Haraldur.
Haraldur segist ekki hafa frétt af neinum óhöppum á fólki, en ljóst sé að eignatjón hafi orðið í óveðrinu.
Allt skólahald í Vestmannaeyjum hefur verið fellt niður, bæði í grunnskólum og í framhaldsskólanum.
Haraldur segir að lítil snjókoma hafi verið í Vestmannaeyjum og því sé lítill skafrenningur. Vandamálið sé hins vegar vindurinn, en gríðarlega hvasst sé í Eyjum.