Kveikt í föstum bíl með flugeldum

Myndir af bílnum voru birtar í fjölmiðlum í gær en …
Myndir af bílnum voru birtar í fjölmiðlum í gær en í nótt var kveikt í honum.

Í nótt var logandi flugeldum kastað inn í bíl sem sat fastur við Dalhús í Grafarvogi og þannig kveikt í honum. Miklar skemmdir urðu vegna elds og reyks. Vegfarandi tilkynnti um eldinn og slökkti hann með duftslökkvitæki.

Bíllinn hafði runnið til í hálku og hávaðaroki í óveðrinu í gær með þeim afleiðingum að hann festist upp á steyptum kanti til móts við Húsaskóla.

Eigandi bílsins varð því að skilja hann eftir þar í gærmorgun og ætlaði, eins og fjölmargir aðrir eigendur bíla sem sátu fastir í gær um allt höfuðborgarsvæðið, að sækja hann í dag. Hins vegar fékk hann símtal í morgun frá lögreglunni um að bílinn væri stórskemmdur og hefði verið dreginn burt.

„Það var ekki góð tilfinning að fá þessar fréttir og ég er alveg miður mín,“ segir eigandinn og bætir við að tjón sitt verði umtalsvert nema að vitni fáist að skemmdarverkunum.

Þeir sem hafa upplýsingar um þetta atvik eru beðnir að hafa samband við lögregluna í síma 444-1100.

Þess má geta að myndir af föstum bílnum birtust mjög víða í fjölmiðlum í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka