Raðir í öskubílaþvott í borginni

Við Olís í Álfheimum í dag þar sem bílar voru …
Við Olís í Álfheimum í dag þar sem bílar voru í röðum á leið í þvott. mbl.is/Björn Jóhann

„Ætli þetta verði ekki nokkur hundruð bílar í lok dags,“ segir Vilhjálmur Einarsson hjá Splass bílaþvottastöð. Mikið hefur verið að gera hjá bílaþvottastöðvum borgarinnar í dag en óvenju mikið öskufjúk hefur verið í borginni.

„Þetta er bara aska sýnist mér. Það var allavega útskýringin sem ég fékk áðan. Mér skildist að það væri svo autt fyrir austan fjall að í rokinu hafi þetta fokið hingað yfir. Maður finnur fyrir því að þetta er að trufla fólk,“ segir Vilhjálmur.

-Hvernig er dagurinn í samanburði við aðra daga?

„Þetta er ekkert óeðlilegur dagur þannig lagað. En óeðlilegt kannski miðað við rigningu og slabb. Fólk vill greinilega taka drulluna af bílnum sem fyrst.“

-En álagið á ykkur - hvernig er það samanborið við aðra daga?

„Ég myndi nú segja að það væri fyrir ofan meðallag.“

Vilhjálmur segir að þeir séu flesta daga að fara í einhver hundruð bíla en í dag sé það áberandi að fólk komi með öskulagða bíla til þvotts.

„Maður sér það á gluggunum hérna í húsinu  og snjónum fyrir utan. Það er eins og snjórinn sé þriggja mánaða gamall - hann er svo brúnn,“ segir Vilhjálmur sáttur við daginn og bætir við: „Það er mjög fínt að gera og eins og segi þá er þetta fyrir ofan meðallag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert