Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Günther Oettinger orkumálastjóra Evrópusambandsins og fulltrúa Þýskalands í framkvæmdastjórn ESB. Á fundinum ræddu þeir m.a. um mögulegt samstarf Íslands og Evrópuríkja um flutning á orku um sæstreng.
Össur greindi Oettinger einnig frá áformum Íslendinga um nýtingu og vinnslu á olíu. Þá ræddu þeir um aðkomu Íslendinga að þróun jarðhita í Evrópu en Oettinger skýrði ráðherra frá því að auka ætti hlut jarðhitans verulega í orkukerfi Evrópu í samræmi við markmið um aukna nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Til að mynda sæi hann fyrir sér að sérstök markmið yrðu sett um nýtingu jarðhita í Evrópu fram til ársins 2030.
Þeir ræddu einnig ítarlega samningskröfur Íslands í orkumálum í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið en kaflinn um orkumál var opnaður á síðasta ári. Þeir undirstrikuðu að fyrirkomulag eignarhalds á náttúruauðlindum væri ekki viðfangsefni ESB heldur alfarið í höndum aðildarríkjanna. „Ísland býr einnig við sérstöðu í orkumálum þar sem íslenski raforkumarkaðurinn er einangraður frá Evrópu, dreifikerfið hér er smærra og einfaldara í sniðum, vægi stóriðju meira og hlutfall endurnýjanlegrar orku mun hærra en þekkist annars staðar í Evrópu. Rætt var um að utanríkisráðherra kæmi til Brussel til frekari viðræðna um málaflokkinn,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.