Töluvert hefur borist af tilkynningum til lögreglunnar í Vestmannaeyjum í morgun um fok á lausamunum en bálhvasst er í Eyjum. Ekkert hefur verið flogið til Vestmannaeyja frá því í fyrradag og Herjólfur hefur ekki siglt síðan í fyrradag. Engar samgöngur eru milli Eyja og lands annan daginn í röð.
Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofu Íslands eru 33 metrar á sekúndu í Vestmannaeyjum og hefur vindhraðinn farið í 42 metra í verstu hviðunum.
Kennsla fellur niður í grunnskólanum í Vestmannaeyjum í dag líkt og í gær.
Kanna á með flug til Vestmannaeyja klukkan 11:15 og eins verður kannað með hvort Herjólfur getur siglt seinni ferðina klukkan 13:00.