Þær voru báðar 14 ára þegar þeim var nauðgað. Enn eru þær á unglingsaldri en þó orðnar sterkar, ungar konur, staðráðnar í að láta reynsluna ekki buga sig þótt lífið verði aldrei samt. „Það má segja að þetta séu tvær manneskjur, sú sem ég var áður og sú sem ég er núna. Ekkert er alveg eins, nema ég heiti það sama,“ segir önnur þeirra.
Stelpurnar tvær, María Björk Helgadóttir 18 ára og Daldís Perla Magnúsdóttir 17 ára, eiga báðar sæti í sérfræðihóp barna og ungmenna sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi. Hópurinn kom að gerð nýrrar skýrslu UNICEF sem gefin var út í gær um ofbeldi gegn börnum á Íslandi. Krakkarnir áttu í gær fund með fjórum ráðherrum og sögðu þeim frá reynslu sinni og skoðunum á því hvað má betur fara í kerfinu.
Heyra mátti á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, Guðbjarti Hannessyni, Katrínu Jakobsdóttur og Ögmundi Jónassyni, að þau voru djúpt snortin eftir fundinn með krökkunum í gær. María og Daldís samþykktu að deila sögu sinni einnig með lesendum mbl.is og það verði til þess að hjálpa öðrum sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi. Þær vilja koma fram undir nafni enda segjast þær ekki þurfa að fara í felur með neitt; skömmin sé ekki þeirra.
Fékk far hjá ókunnugum
María: „Ég lenti í því að fara upp í bíl hjá ókunnugum til að fá far heim en lenti í nauðgun. Ég var nýorðin 14 ára. Og ég sagði ekki frá strax þannig að það voru ekki neinar sannanir. Þetta gerðist í maí og ég sagði frá í ágúst. Fór þá í skoðun og skýrslutöku hjá héraðsdómi og það var ömurlegt. Það var verið að vinna í málinu mínu í tvö ár og svo var ekkert gert. Lögreglan sagði að þetta væri örugglega ekki í fyrsta sinn sem þessi maður gerði þetta, af því að þetta var mjög planað, en af að þetta var bíll vinar hans og þeir fóru tveir í skýrslutöku, þá var þetta orð á móti orði.“
María segir að hún hafi í fyrstu ekki treyst sér til að segja frá. „Út af því að ég fór sjálf upp í bíl, sem mamma mín var búin að banna mér, þá var skömmin svo mikil að ég þorði því ekki. Ég kenndi sjálfri mér um. Ég ætlaði aldrei að segja frá.“
Eins og gefur að skilja tók það á 14 ára gamalt barn að burðast með slíka lífsreynslu eitt. Á endanum fór það svo að María fékk frænku sína til að segja mömmu sinni frá og segir að á þeim tímapunkti hafi hún verið búin að missa lífsviljann. „Ég ætlaði bara að fara. Ég nennti þessu ekki lengur. Og allir sáu breytingarnar, ég grenntist og varð rosalega skapstór. Lét það bitna á litlu systrum mínum og öllum í kringum mig. Þetta eyðilagði mig og ég var ónýt í 2 ár.“
„Lögreglan bjargaði lífi mínu“
Segja má að Daldís hafi verið heppin að því leyti að í hennar tilfelli var gripið inn í strax sama kvöld og henni var nauðgað.
Daldís: „Ég var á bæjarhátíð á Stokkseyri og var fengin, eiginlega hálfpartinn dregin inn í skúmaskot þar sem var bara mold og ógeð...Fyrsta hugsun mín var að þetta hefði ekki gerst. Ég vildi ekki trúa því. Svo einhvern veginn kemur lögreglan upp úr þurru í götuna þar sem þetta var og fær mig til að koma með sér. Ég gæti ekki verið ánægðari með lögregluna. Hún bjargaði lífi mínu bara til frambúðar, annars hefði ég örugglega farið heim og í sturtu og þrifið fötin mín, ef löggan hefði ekki komið.“
Daldís fór strax með fylgd lögreglu á neyðarmóttöku nauðgana og í skýrslutöku. Foreldrar hennar kærður nauðgunina daginn eftir og tveimur árum síðar fékk pilturinn 24 mánaða fangelsisdóm sem síðan var staðfestur í Hæstarétti. María segist óska þess að það sama hefði gerst hjá sér. Þegar henni var boðið far var hún á leið heim af skólaskemmtun og vissi af lögreglunni í nágrenninu. Kannski hefði mál hennar endað fyrir dómi líka ef hún hefði fengið aðstoð strax líkt og Daldís.
Allt of lengi í kerfinu
Stúlkurnar segja báðar að biðin eftir niðurstöðu málsins í dómkerfinu sé afar erfið og allt of löng. Í báðum tilfellum tók tvö ár að ljúka málinu. Daldís segir það hafa verið ákveðinn létti að sjá dóm falla en hjá Maríu gerðist hið gagnstæða. Málið var fellt niður án ákæru og við þau tíðindi fékk María alvarlegt bakslag á bataveginum.
María: „Rétt eftir að ég fékk að vita þetta byrjaði ég að drekka hryllilega mikið, byrjaði að reykja, fór að prófa alls konar fíkniefni. Mér var gefin von um að hann yrði lokaður inni og ég náttúrulega byggði upp þessa von. Svo brást þetta allt.“
Svo fór að María reyndi að svipta sig lífi og tókst það næstum því. Hún tók of stóran skammt af lyfjum en sá svo eftir því og sagði vinkonu sinni sem hringdi í sjúkrabíl. Við komuna á spítalann stöðvaðist í henni hjartað í 7 sekúndur. Hún man næst eftir sér sólarhring síðar þegar hún vaknaði umkringd fjölskyldu sinni.
Fjölskyldan brotin og reið
Stúlkurnar búa báðar svo vel að eiga fjölskyldur sem styðja við bakið á þeim og hafa hjálpað þeim að vinna sig út úr lífsreynslunni, en þær segja báðar alveg ljóst að aðstandendur þurfi líka meiri hjálp.
María: „Við erum barn foreldra okkar en þegar þetta gerist fyrir barnið þeirra þá eru þau alveg jafnmikið brotin. Eins og mamma mín hún hugsaði: „Hvað gerði ég rangt? Af hverju bannaði ég henni ekki að fara út þetta kvöld?“Hún kenndi sjálfri sér um, og pabbi minn gerði það líka. Hann taldi mig hata alla karlmenn eftir þetta og þorði ekki að koma nálægt mér. Hann hringdi út um allt til að fá hjálp en var bara bent á netið.“
Daldís: „Líka reiðin, eins og hjá feðrum og bræðrum. Það er hræðilegt. Við eigum báðar reiða feður og bræður og þeir myndu missa vitið ef að þeir myndu mæta [gerendunum]. Þannig að þeir þurfa alveg klárlega hjálp, það er eitthvað sem virkilega þarf en það er engin hjálp og þú þarft líka bara að finna hana sjálf, eða sjálfur.“
María: „Einn klukkutími hjá góðum sálfræðingi kostar 14 þúsund kall og mínir foreldra, við höfum engan vegin efni á þessu. En ég þarf að hafa þau sterk svo að ég geti verið sterk.“
Barnahús eins og annað heimili
Aðspurðar hvað hafi hjálpa þeim mest svara stelpurnar ákveðið og einum rómi: Barnahús. Á þeim 15 árum sem liðin eru síðan Barnahús var stofnað hefur yfir 2000 börnum, sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðisofbeldi, verið vísað þangað. Stelpurnar segja það hafa verið mikinn létti að geta talað um reynslu sína við fjölskylduna en ekki síður að geta opnað sig fyrir ókunnugi manneskju.
Daldís: „[Konurnar í Barnahúsi] hafa hjálpað okkur svo mikið og okkur þykir svo vænt um þær, þær hafa bara verið eins og kletturinn okkar í þessu öllu. Það er svo vinaleg móttaka og manni líður svo vel þar. Þetta er bara eins og önnur mamma okkar. Það mættu klárlega vera miklu fleiri starfsmenn þar.“
María: „Maður er ekki eins og kúnninn þeirra, maður er eins og barnið þeirra. Þær hugsa rosalega vel um okkur og það þarf klárlega að setja miklu meiri pening í að stækka Barnahús. Ég ætla ekki að hætta að gera hluti fyrr en það er komið í gegn.“
Daldís: „Ég datt aðeins í þunglyndi [eftir nauðgunina]. Í svona mánuð fór ég ekki fram úr rúmi eða út úr húsi, lá bara og horfði á sjónvarpið en svo smám saman fór þetta að koma aftur. Ég var mjög reglulega hjá sálfræðingi í Barnahúsi. Lífið er ekkert eins, það verður aldrei eins eftir þetta, en ég náði að byggja mig upp. Mamma mín til dæmis lenti í mjög svipuðu þegar hún var ung en fékk ekki neina hjálp þannig að það var verra fyrir hana, alveg fram á fullorðinsár, á meðan ég fékk strax hjálp. Þannig að mér fannst bara að ég ætti að geta orðið sterkari manneskja.“
María: „Ég er komin á beinu brautina en ég er ennþá að finna rétt lyf og svoleiðis upp á að líða alveg fullkomlega. Ég mun örugglega vera að vinna í þessu allt mitt líf. Ég eignast börn og þá mun þetta kvikna, hvað ef börnin mín lenda í þessu. Þetta mun alltaf fylgja mér, en sálfræðingurinn minn og geðlæknirinn minn segja að ég sé búin að ná alveg 100% árangri í meðferðinni.“
„Ekki okkar skömm“
Daldís og María bera höfuðið hátt og leggja áherslu á að byggja sig upp sem sterkari manneskju. Það er þó ekki auðvelt að losna til dæmis við óttann um að mæta gerandanum óvænt.
Daldís: „Ég veit að Fangelsismálastofnun má ekki segja okkur neitt en mér finnst samt að við mættum fá einhverja viðvörun þegar [gerandinn] er kominn út. Ef ég hefði ekki heyrt það frá vinkonu minni að hann væri kominn út og og ég hefði mætt honum einhvers staðar, ég hefði misst vitið.
„Ég hef nokkrum sinnum óvænt mætt honum og það er alltaf ég sem vík. Ég bý úti á landi og fer sjaldan í Kringluna en svo mætti ég honum einmitt þar, í sama rúllustiganum. Það mun alveg pottþétt koma fyrir aftur og ég er ennþá að vinna í að það muni breytast þannig að það verði bara hann sem getur farið eitthvað annað.“
Þær eru ennþá að vinna í sínum málum en virðast þó alls óhræddar að standa með sjálfum sér og segjast ekki fara með þessa lífsreynslu í felum. „Þetta er ekki okkar skömm!“
Þörf á meiri fræðslu og stuðningi
Það er ýmislegt sem stelpurnar segjast vilja sjá betur fara í kerfinu og nefna sem dæmi meiri kynfræðslu og fræðslu um ofbeldi og úrræði fyrir þolendur í grunnskólum. Hvorugar þeirra vissu sjálfar hvert þær ættu að snúa sér þegar þær höfðu orðið fyrir nauðgun og höfðu aldrei heyrt minnst á Barnahús. Þær segjast vilja sjá heilan valáfanga um þetta málefni í 10. bekkjum grunnskóla og hafa engan efa um að hann yrði vel sóttur.
Þrennt er það þó umfram annað sem þær segja að þurfi að bæta úr.
María: „Mér finnst að það eigi að vinna í því að stækka Barnahúsið, bæta dómskerfið og gefa aðstandendum og þolendum meiri stuðning. Þetta er það sem ætti að vinna í strax, þetta eru stóru málin sem skipta máli á bataveginum. Ég veit þetta er ekki eitthvað sem gerist á morgun, en ég vona að þetta breytist allavega í nánustu framtíð.“
Daldís: „Það verður alltaf auðveldara að ræða þetta og maður vill geta tjáð sig því það væri frábært ef það hjálpar einhverjum. Ég vonast til þess með þessum fundi [með ráðherrunum] að kerfið breytist og ef það þarf endilega að vera svona ofbeldi, að það verði þá að minnsta kosti betri dómar og að fórnarlömb og aðstandendur fái betri hjálp.“