Í dag fengu gestir háskóladagsins að takast á við kjötáskorunina 2013 í boði Matís. Í Háskóla Íslands var boðið upp á smökkun á nautakjöti og hrossakjöti og var tilgangurinn sá að leyfa Íslendingum að meta hvort þeir finni mun á þessum tegundum.
„Það hefur verið stöðugur straumur í allan dag,“ segir Valgerður Lilja Jónsdóttir, mastersnemi í matvælafræði, um keppnina en hún vinnur að lokaverkefni hjá Matís. „Fólk sýnir þessu áhuga og vill gjarnan fá að smakka,“ segir hún. Að sögn Valgerðar finnur fólk greinilega ekki afgerandi mun á þessum tveimur tegundum.
Í tilkynningu frá Matís kemur fram að tilgangur áskorunarinnar hafi ekki síst verið að vekja áhuga á þeim verkefnum sem matvælafræðingar um allan heim starfa við.
Hrossakjötshneykslið svokallaða hefur verið mikið í fréttum undanfarnar vikur en í mörgum Evrópulöndum hefur fundist hrossakjöt í stað nautakjöts í ýmsum matvörum.