Erla Tryggvadóttir var þreytt og orkulaus í sjö ár án skýringa þar til hún greindist með endómetríósu. Hún vill opna umræðuna um sjúkdóminn og segist búa að því að hafa átt sterkar konur að baki sér.
Erla er stundum knúsuð fyrir að vera barnabarn nöfnu sinnar heitinnar í Lýsi sem lést í hörmulegu slysi á Spáni. Erla sjálf hefur reynt ýmislegt síðustu árin en segir áskoranir vera sínar ær og kýr. Konurnar í lífi hennar, föðursystur, móðir og amma hafa verið frumkvöðlar, sýnt hugrekki og stappað í hana í stálinu.
Erla Tryggvadóttir hefur á 34 árum reynt eitt og annað. Nöfnu sína, hina mögnuðu Erlu Tryggvadóttur, jafnan kennda við Lýsi, kvaddi hún fyrir um tveimur árum þegar sú síðarnefnda lést í sviplegu bílslysi á Spáni. Átta ára gömul missti hún systur sína og árið 2003 segir hún hafa skerpt á umburðarlyndi og skilningi þegar móðir hennar tók saman við konu. Hún var því sjóaðri en flestir þegar hún missti annan eggjastokkinn. Þetta er vissulega ákveðinn ólgusjór en Erla segist vera tilbúin að takast á við nýjan kafla utan RÚV en þar sagði hún starfi sínu í útvarpinu lausu fyrir skemmstu. Hún hefur starfað sem dagskrárgerðarmaður á Rás 1 undanfarin ár og meðal annars haft umsjón með þáttunum „Þær höfðu áhrif“ þar sem Erla fjallaði um áhrifamiklar konur á síðustu öld, „Bankað upp á“ og svo Samfélagið í nærmynd.
Erla elst upp í Vesturbæ Reykjavíkur og Garðabæ. Foreldrar hennar voru ungir, frjálslyndir en ríkir þátttakendur í uppvextinum voru ekki síður þeir sem tilheyrðu stórfjölskyldunni. Af mörgu segir Erla það hafa verið eitt mesta áfall sem hún hafi orðið fyrir í lífinu þegar amma hennar Erla lenti í hörmulegu bílslysi á Spáni. Þar átti hún íbúð og dvaldi nokkrar vikur á ári. Á leið út á flugvöll var Erla og systir hennar Svana á leið út á flugvöll að sækja fjölskyldumeðlim. Þær komust aldrei alla leið. „Ef ég hugsa um þann tíma sem amma mín er uppi; en hún var fædd árið 1929, var það að sjálfsögðu óvenjulegt að konur létu að sér kveða í viðskiptum. Eiginmaður hennar, Pétur, varð forstjóri Lýsis og líf þeirra beggja var í hringiðu íslensks viðskiptalífs.“
Erla segir ömmu sína hafa verið frumkvöðul að mörgu leyti. Hún rak heildverslanir í félagi við dóttur sína Katrínu sem varð til þess að Katrín keypti á endanum Lýsi. Þá kenndi hún jóga og var með þeim fyrstu hérlendis sem fóru að skoða samband andlegrar heilsu við þá líkamlegu. „Hennar saumaklúbb úr Menntaskólanum í Reykjavík tilheyrðu og tilheyra margar sterkar konur. Má þar nefna Vigdísi Finnbogadóttur og Sigríði Erlendsdóttur. Þá var hún að sjálfsögðu ættmóðir fjölskyldunnar. Við vorum afar nánar. Hún er án gríns skemmtilegasta kona sem ég hef kynnst, og þekki ég nú þær margar skemmtilegar.“
Viðtalið í heild má lesa í sunnudagsblaði Morgunblaðsins