Íslendingur í fangelsi í Tyrklandi

Fáni Tyrklands.
Fáni Tyrklands. mbl

Davíð Örn Bjarnason, 28 ára gamall Íslendingur búsettur í Svíþjóð, var á föstudaginn handtekinn í Tyrklandi. Tyrknesk yfirvöld saka hann um fornmunasmygl; fyrir að ætla að fara með úr landi marmarastein sem hann keypti á markaði í Tyrklandi. Þóra Birgisdóttir, kona Davíðs, segir að hans bíði þriggja til tíu ára fangelsisvist eða átta til 24 milljóna króna sekt. Davíð verður leiddur fyrir dómara í Tyrklandi á morgun.

„Ég er eiginlega bara dofin og veit ekki almennilega hvernig mér líður. Þetta er eins og úr bíómynd og maður hélt að svona lagað gæti ekki hent mann,“ segir Þóra sem stödd er í Svíþjóð. „Mig langar bara að heyra í honum og vita hvernig honum líður, samviskubitið er að drepa mig yfir að fara að sofa hérna í rúminu okkar á hverri nóttu án þess að hafa hugmynd um hvort sé verið að berja hann þarna úti. Ég veit ekki einu sinni hvort hann er með rúm! Ég veit ekki neitt! Allt út af einhverjum helvítis steini! Ég veit ekkert hvort ég fæ  að sjá hann aftur og hversu sterkur hann er þarna úti. Ég er búin að segja við fjögurra ára gamla strákinn okkar að pabbi komi ekki heim og strákurinn neitar að fara í flugvélina með ömmu sinni og afa. Pabbi er ekki að koma heim.“

Öskrað á þau á lögreglustöðinni

Þóra segist ekki vita hvort hún megi fara út til að hitta hann, „hvort það sé handtökuskipun á hendur mér eða hvað. Við bíðum bara og sjáum hvernig dóm hann fær á morgun. Ferðaskrifstofan hefur ekkert gert til að hjálpa okkur. Leiðsögumaðurinn, sem er Tyrki, kom bara og öskraði á okkur á lögreglustöðinni að við hefðum átt að kynna okkur reglurnar sem giltu í landinu. Hann var bara með kjaft og leiðindi og svo fór hann bara. Hann hjálpaði okkur ekki neitt. Ég veit ekkert hvernig fangelsin eru þarna úti og þessi óvissa skemmir mann.“

Þóra og Davíð Örn fóru að sögn Þóru í ferð til Tyrklands með ferðaskrifstofunni Tom Travel. Innifalið í ferðinni var leiðsögumaður, hótel og fleira. „Við fórum með leiðsögumanninum okkar að skoða byggðir Rómverja. Þar keyptum við þennan stein af einhverri konu á einhverjum af þessum mörkuðum sem eru við þessa staði. Davíð hefur alltaf verið áhugasamur um sögu og vildi því eignast svona stein,“ segir Þóra.

„Okkur datt aldrei í hug að við mættu ekki kaupa þetta og taka með okkur úr landi. Leiðsögumaðurinn sem var með okkur minntist aldrei á það. Þegar við komum svo upp á flugvöll fór taskan okkar í gegnumlýsingu áður en við tékkuðum okkur inn. Þá kom lögreglumaður og gekk milli mín og Davíðs og þeir tóku steininn. Þaðan var farið með okkur inn á lögreglustöð þar sem við biðum í klukkutíma,“ segir Þóra.

„Þú mátt fara - hann verður eftir“

„Þegar við fórum að spyrja út í hvers vegna okkur væri haldið var okkur sagt að verið væri að meta steininn. Svo var mér skipað að fara út í flugvél og skilja Davíð eftir. Við vorum með pössun fyrir börnin okkar þrjú í Svíþjóð sem áttu sjálf flug til Íslands þannig að við urðum að komast heim til barnanna okkar. Síðan rétti lögreglumaðurinn mér passann minn og segir: „Þú mátt fara. Hann verður eftir.“ Ég þurfti þá bara að taka töskuna og skilja Davíð eftir. Hann fékk að tala við mömmu sína í 20 sekúndur í síma, þá var síminn rifinn af honum í þessu tyrkneska fangelsi sem hann er í. Það eina sem hann gat sagt var að það væri búið að fara illa með hann og að hann skildi ekkert sem væri sagt við hann og vissi ekkert af hverju hann væri í fangelsi.“

Utanríkisráðuneytið fékk að sögn Þóru túlk til að hringja í fangelsið og þá var hægt að tala við hann og róa hann aðeins. „Síðan fór hann fyrir dómara, þar sem allir bjuggust við að hann fengi sekt og færi að fara, en dómarinn sagði að hann ætti að fara í fangelsi og að á morgun (mánudag) yrði dæmt hvort hann færi í þriggja til tíu ára fangelsi eða þyrfti að greiða átta til 24 milljónir króna í sekt. Við erum því bara að bíða eftir að fá að vita hversu stór skellurinn verður,“ segir Þóra.

„Ég veit ekkert hvernig fangelsin eru þarna, ég veit ekki með hversu mörgum hann er í klefa, ég veit ekki hvort hann hefur verið laminn eða hvort hann hefur rúm til að sofa í. Utanríkisráðuneytið veit í rauninni ekki neitt og fær ekkert að vita. Foreldrar Davíðs eru að koma til Svíþjóðar að sækja tvö yngstu börnin okkar, svo er ég bara að pakka niður í íbúðinni og segja upp vinnunni og fara aftur til Íslands. Ég á engan að hérna og er alveg ein og maður þarf allan þann stuðning sem maður fær við svona aðstæður.“

Þóra segir að allir sem voru með þeim í ferðinni hafi verið í losti og  ekkert skilið af hverju það væri brugðist svona við.

Verður kærður fyrir smygl

„Í skýrslu sem við fengum frá utanríkisráðuneytinu segir að hann sé kærður fyrir smygl á fornmunum. Við vorum ekki að smygla neinu. Steinninn var ofarlega í farangurstöskunni minni svo það er algjör vitleysa að við höfum ætlað að smygla einhverju. Eru ferðaskrifstofurnar þarna að vinna svona, lokka fólk inn í landið og selja því eitthvað sem það má ekki kaupa til að græða smá, og sjá svo á eftir saklausu fólki í fangelsi?“ segir Þóra.

„Ég er ein með þrjú börn og get ekki borgað sektina sem hann gæti fengið. Ég á ekki neitt. Það mun enginn lána mér neitt. Ég á bara það sem ég er með mér akkúrat núna. Hann þarf því bókað að sitja þetta af sér.“

Frá Tyrklandi.
Frá Tyrklandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert