Landsfundurinn sterkasta vopnið

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, blés á gagnrýnisraddir sem segja landsfund flokksins hafa komið í bakið á honum. Hann segist telja að þegar upp er staðið verði hann sterkasta vopn flokksins í kosningabaráttunni.

Bjarni og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, voru gestir hjá Sigurjóni M. Egilssyni í þætti hans Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Meðal annars var tæpt á gengi flokkanna í skoðanakönnunum undanfarið, en báðir flokkar hafa dalað.

Meðal þess sem Bjarni sagði er að sú stefna sem slípuð var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og það umboð sem frambjóðendur fengu væri sterkasta vopnið í baráttunni. Hann segir mikinn kraft í frambjóðendahópnum og hann ætli sér að ná til þeirra kjósenda sem enn eru óákveðnir. „Við ætlum að ná til þeirra og sannfæra um að það þurfi að breyta um stefnu, að við séum með stefnuna sem dragi skýin frá sólu.“

Katrín sagðist taka skoðanakönnunum með ró. Flokkurinn gæti verið stoltur af sínum verkum enda búið að reisa landið við eftir hrunið. Kosningarnar árið 2009 hefðu hins vegar verið óvenjulegar fyrir flokkinn. 

Hún sagði að stefnt væri að því að auka við gengið með málefnalegum og ábyrgum málflutningi. Það ætti eftir að skila sér. Stefna Vinstri grænna mætti mikilli jákvæðni úti í samfélaginu „og ég hef fulla trú á því að það eigi eftir að skila sér“.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka