Nóttin, þegar Reykjavík brann

Stærsti bruni á Íslandi, stóð á forsíðu Morgunblaðsins 26. apríl 1915. Aðfaranótt  dagsins áður, 25. apríl kviknaði eldur út frá gaslampa á Hótel Reykjavík sem stóð við Austurstræti 12, gassprenging varð í húsinu og það fuðraði upp á andartaki, eins og segir í fréttinni.

Síðan kviknaði í tólf húsum til viðbótar, tjónið varð gífurlegt og tveir létu lífið.  Auk Hótel Reykjavíkur voru ýmis helstu  fyrirtæki þessa tíma þarna til húsa; Landsbankinn, Eimskipafélagið, á annan tug verslana og tryggingafélag.

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur fór með mbl.is í gönguferð um þessar slóðir, en fátt minnir nú á þessa örlagaríku nótt fyrir tæpum 98 árum.

Alls brunnu 13 hús

Um kvöldið höfðu mikil veisluhöld verið á hótelinu, en þar hafði farið fram glæsilegt brúðkaup. Vegfarandi varð var við eld í húsinu, nokkru eftir að veislugestir höfðu yfirgefið það, hljóp þangað inn til að gera viðvart, en var ekki trúað í fyrstu. Eldurinn breiddist hratt út og varð við lítið ráðið og þegar upp var staðið höfðu alls 13 hús brunnið sem stóðu beggja vegna Austurstrætis og við Hafnarstræti.

Eftir þetta var bannað að byggja úr timbri

Ásýnd miðborgarinnar gjörbreyttist við brunann. Bannað var að byggja úr timbri, hér eftir skyldu öll hús vera úr steini. Sett var ákvæði í byggingareglugerð um að ekki mætti byggja timburhús nema þau stæðu stök. „Þetta varð til þess að hérna hófst mikil steinsteypuöld,“ segir Guðjón.

Hann segir að lengi hafi mátt sjá marka fyrir brunasvæðinu, en smám saman hafi ný stórhýsi risið á grunnum þeirra sem brunnu.

Hann segir brunann hafa verið borgarbúum mikið reiðarslag. „Ég held að þetta hafi verið alveg svakalegt áfall,“ segir Guðjón.

Í tilefni af 120 ára afmæli Landsbankans árið 2006 lét Björn G. Björnsson sýningahönnuður gera líkan af miðbænum. Er ýtt er á hnapp stendur bærinn í „ljósum logum“ með tilheyrandi hljóðum og ljósagangi. Líkanið er til sýnis í Árbæjarsafni og má sjá á meðfylgjandi myndum.

Frásögn Guðmunds Karlssonar brunavarðar í Lesbók Morgunblaðsins 26.2. 1950

Líkan Björns G. Björnssonar af eldinum í miðbænum 1915.
Líkan Björns G. Björnssonar af eldinum í miðbænum 1915. Björn G. Björnsson
Líkan Björns G. Björnssonar af eldinum í miðbænum 1915.
Líkan Björns G. Björnssonar af eldinum í miðbænum 1915. Björn G. Björnsson
Líkan Björns G. Björnssonar af eldinum í miðbænum 1915.
Líkan Björns G. Björnssonar af eldinum í miðbænum 1915. Björn G. Björnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert