Davíð Örn enn í fangelsi

Davíð Örn Bjarnason ásamt unnustu sinni, Þóru Birgisdóttur.
Davíð Örn Bjarnason ásamt unnustu sinni, Þóru Birgisdóttur.

Aðstoðarmaður aðalræðismanns Íslands í Ankara hefur heimsótt Davíð Örn Bjarnason, sem var handtekinn fyrir helgi grunaður um fornmunasmygl, í fangelsi auk dómstóls í Antalya. Aðalræðismaðurinn segir að aðstoðarmaðurinn hafi nálgast öll dómsskjöl og hyggst veita nánari upplýsingar um málið á morgun.

Þetta segir Selim Sariibrahimoglu, aðalræðismaður Íslands í Ankara, í samtali við mbl.is.

Þóra Birgisdóttir, unnusta Davíðs, segir einnig í samtali við mbl.is, að foreldrar Davíðs eigi nú fund í utanríkisráðuneytinu varðandi málið.

„Eina sem ég er búin að fá að vita í dag er að það er búið að taka af honum lögfræðingana sem voru úthlutaðir í gegnum utanríkisráðuneytið heima. Honum var úthlutaður tyrkneskur lögfræðingur; þannig að það er alveg búið að loka alveg á okkur varðandi samskipti,“ segir Þóra.

Hún bætir við að aðalræðismaður Íslands í Tyrklandi reyni nú að hafa uppi á lögmönnunum til að fá að vita hvar Davíð sé staddur. „Það veit enginn í hvaða fangelsi hann er eða hvort hann sé á lífi,“ segir Þóra og bætir við að hún hafi engar upplýsingar fengið um Davíð.

„Ég skil ekki af hverju enginn er búinn að fara þarna út til þess að finna hann. Það er hræðilegt að maður viti ekki hvar maðurinn er; enginn getur sagt mér hvar hann er,“ segir Þóra ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert