Grannt fylgst með máli Davíðs

Davíð Örn Bjarnason á flugvellinum í Antalya skömmu áður en …
Davíð Örn Bjarnason á flugvellinum í Antalya skömmu áður en hann var handtekinn.

Fulltrúar utanríkisráðuneytisins fóru yfir mál Davíðs Arnar Bjarnasonar, sem var handtekinn í Tyrklandi fyrir helgi, með foreldrum hans nú síðdegis. „Ræðismaður okkar í Ankara vinnur að málinu og sendi lögmann af sinni lögfræðistofu til Antalya,“ segir Pétur Ásgeirsson, sviðsstjóri í utanríkisráðuneytinu, í samtali við mbl.is.

Davíð Örn er enn í fangelsi í Antalya, þar sem hann var handtekinn sl. föstudag sakaður um að hafa ætlað að smygla fornmun úr landi. Lögmaðurinn heimsótti Davíð og sótti dómsskjöl er varða málið.

„Málið var ekki tekið fyrir í dag, að því er við best vitum,“ segir Pétur þegar hann er spurður hvort Davíð hafi verið færður fyrir dómara í dag.

Pétur bendir á að hlutverk utanríkisráðuneytisins, sendiráða og ræðismanna sé fyrst og fremst að útvega mönnum lögfræðilega aðstoð, fylgjast með hvernig mál séu unnin og vera mönnum til handar eins og hægt sé.

Aðalræðismaður Ísland í Ankara útvegaði Davíð strax lögfræðiaðstoð í Antalya og er málið nú afgreiðslu innan tyrkneska réttarkerfisins.

„Ræðismaðurinn, sem er sjálfur starfandi lögmaður, hann mun fylgjast með málinu og framgangi þess,“ segir Pétur og bætir við að hann muni veita utanríkisráðuneytinu upplýsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert