„Ég bíð eftir að heyra frá þeim. Ég hef ekki heyrt frá utanríkisráðuneytinu eða neinum öðrum og ég veit ekki hvenær í dag málið verður tekið fyrir,“ segir Þóra Birgisdóttir, sambýliskona Davíðs Arnar Bjarnasonar sem nú er í fangelsi í Tyrklandi vegna ásakana um fornmunasmygl.
„Morgunninn í morgun er sá lengsti í lífi mínu. Ég svaf ekkert í nótt og það sem af er þessum degi er eins og heil vika.“
Davíð var handtekinn í Tyrklandi er hann hugðist fara úr landi, en í tösku þeirra Þóru fannst marmarasteinn sem þau höfðu keypt á markaði. Hann verður leiddur fyrir dómara í dag.
Þóra og Davíð hafa verið búsett í Svíþjóð um tíma, en hún segist núna vera að gera ráðstafanir til að flytja til Íslands. Hún segir að mál Davíðs hafi vakið athygli sænskra fjölmiðla og að þeir hyggist fjalla um það, en sænskur diplómat lenti í svipuðum aðstæðum í fyrra.
„Það vona auðvitað allir að það verði góðar fréttir af þessu máli sem allra fyrst,“ segir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, en starfsmenn ráðuneytisins vinna nú að máli Davíðs Arnar Bjarnasonar, sem handtekinn var í Tyrklandi á föstudaginn vegna gruns um fornmunasmygl.
„Það er verið að vinna í þessu núna og ég vona að málið fari að skýrast,“ segir Urður. „Ræðismaðurinn er að reyna að vinna í máli Davíðs eins og hann mögulega getur. Hann er í bestu aðstöðunni til þess, hann er lögmaður og getur aðstoðað hann í samskiptum við ákæruvaldið þarna úti. Það er gott að þarna er maður sem hefur þessa þekkingu til að bera, það var lán í óláni að ræðismaðurinn skuli vera lögmaður. En vonandi mun það skýrast sem allra fyrst, hversu alvarlegum augum þetta er litið af tyrkneskum yfirvöldum.“
Auk ræðismanns Íslands í Tyrklandi eru starfsmenn utanríkisráðuneytisins hérna heima að vinna í málinu.
Að sögn Urðar eru strangar reglur um flutning á steinum úr landi og útflutning á fornminjum í gildi í mörgum löndum. „En það er misjafnt hvernig þeim er framfylgt og auðvitað getur verið erfitt að vara sig á svona löguðu, en við getum ekki verið með yfirlit yfir lög og reglur í öllum löndum.“
Urður segist vita til þess að eitt sambærilegt mál hafi komið upp varðandi íslenskan ferðamann á undanförnum árum. Þá hafi karlmaður verið handtekinn í Póllandi fyrir um níu árum vegna gruns um að hafa ætlað að smygla fornmunum úr landi. Hann hafi verið látinn laus innan skamms.