Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segist sjá ekkert því til fyrirstöðu að fram fari opinber rannsókn á komu bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) til Íslands sumarið 2011 að því gefnu að rannsóknarhagsmunum sé ekki teflt í tvísýnu að mati ríkissaksóknara.
Þetta kemur fram í svari Ögmundar við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um bandarísku alríkislögregluna og mál sem sé til rannsóknar hjá ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra.
Þorgerður spyr Ögmund m.a. að því hvort hann, eða eftir atvikum utanríkisráðherra, hafi komið þeirri kröfu á framfæri við bandaríska dómsmálaráðuneytið að FBI hafi þurft nýja formlega réttarbeiðni í málinu sem sé til rannsóknar hjá ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra.
Fram kemur í svari innanríkisráðherra, að réttarbeiðni, sem barst frá bandarískum stjórnvöldum 30. júní 2011, hafi tekið til tiltekinna aðgerða í þágu rannsóknar á máli sem tengdist meintum undirbúningi tölvuárásar á íslenska stjórnarráðið og á fyrirtæki hér á landi. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ráðuneytinu barst frá ríkissaksóknara um fyrirætlanir FBI í ágúst 2011, hafi þá um verið að ræða aðgerðir sem voru allt annars eðlis en greindar höfðu verið í réttarbeiðninni. Því hafi að mati ráðuneytisins þurft aðra réttarbeiðni er tók til þeirra tilteknu aðgerða.
Segir að þessu sjónarmiði ráðuneytisins hafi verið komið til ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra er áttu samskipti við fulltrúa bandarísku alríkislögreglunnar er hafði þá komið til landsins. Þetta hafi ekki verið tilkynnt sérstaklega til bandaríska dómsmálaráðuneytisins þar sem ekkert erindi frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu hafi legið fyrir í ráðuneytinu annað en almenn fyrirspurn varðandi heimildir bandarískra lögregluyfirvalda til að annast yfirheyrslu á einstaklingum hér á landi. Því erindi hafi verið svarað innan tveggja daga af hálfu ráðuneytisins.
„Þegar síðar kom í ljós að fulltrúar FBI voru enn að störfum hér á landi þann 29. ágúst 2011 áttu ráðuneytisstjórar innanríkis- og utanríkisráðuneytisins fund með fulltrúa sendiráðs Bandaríkjanna þar sem framangreindar upplýsingar voru ítrekaðar,“ segir í svari Ögmundar.
Þá segir hann að samstarf íslenskra lögregluyfirvalda við FBI hafi verið stöðvað 25. ágúst 2011 þar sem fyrirliggjandi réttarbeiðni hafi ekki náð til þeirra aðgerða sem FBI hugðist þá grípa til. Erlend lögreglulið hafi ekki heimild til að sinna lögreglustörfum hér á landi án samstarfs við íslensk yfirvöld.