„Það er bara allt horfið“

Tónlistarhús í Kulusuk á Grænlandi brann til kaldra kola á föstudaginn. Tjónið er gífurlegt en í húsinu var safn hljóðfæra auk tækjabúnaðar sem notaður var til tónleikahalds í húsinu. „Það er allt horfið,“ segir Hjörtur Smárason en hann er einn af forsvarsmönnum söfnunar sem er hafin vegna tjónsins.

Vonskuveður var í Kulusuk á föstudaginn þegar vart var við eld í húsinu. „Það var svo mikill stormur og snjór að slökkviliðið komst ekki að húsinu og því var ekkert hægt að gera,“ segir Hjörtur. Grunur leikur á að kviknað hafi í út frá kyndingu en skorsteinninn brotnaði í húsinu og segir Hjörtur að það hafi mögulega verið kveikjan að eldinum. Húsið brann til grunna og engu var bjargað. „Það er bara ekkert eftir,“ segir Hjörtur.

Henrik Pötzsch, kennari í Kuluskk, hefur í vetur unnið að því að gera upp húsið og koma á fót tónlistarhúsi fyrir börnin í þorpinu. „Þetta er orðið að menningarhúsi fyrir staðinn,“ segir Hjörtur. „Þarna hefur fólk safnast saman og spilað tónlist“. Síðastliðið sumar voru haldnir styrktartónleikar þar sem safnað fyrir hljóðfærum sem keypt voru fyrir starfsemina. Tjónið er mikið því í húsinu var gott safn hljóðfæra, magnara, hljóðnema, hátalara ásamt fleiru. Einnig geymdu nokkrir heimamenn hljóðfæri sín í húsinu.

Tjónið ekki einungis fjárhagslegt

„Húsið þjónaði öllu samfélaginu,“ segir Hjörtur. Húsið var fyrst og fremst hugsað fyrir börnin. „Þetta var í raun samkomustaður fyrir þau“. Húsið var notað í tónlistarkennslu og einnig hafa verið haldnir tónleikar þar í vetur. "Þarna hefur verið unnið gríðarlega gott starf með börnunum," segir Hjörtur. „Eins og margir vita er ekkert sérstaklega gott ástand á þessu svæði,“ bætir hann við og segir lítið við að vera fyrir börnin og að mikið sé um félagsleg vandamál. Hjörtur segir gríðarlega mikilvægt að einhver afþreying sé í boði fyrir börn og unglinga á staðnum. „Þessir krakkar fara ekkert í bíó og það er varla internettenging á svæðinu. Þetta er það eina sem við er að vera,“ bætir hann við.

Hjörtur hefur stofnað hóp á Facebook þar sem hann vekur athygli á málinu og kynnir söfnunina. „Við erum fyrst og fremst að safna hljóðfærum, að það sé hægt að bæta þeim þann skaða“. Einnig verður tekið á móti peningaframlögum og segir Hjörtur að fljótlega verði opnaður bankareikningur þar sem fólk geti styrkt málefnið. „Markmiðið er fyrst og fremst að koma upp þeim hljóðfærakosti sem var til staðar“ segir Hjörtur en stefnt er að því að koma upp aðstöðu í annars staðar í bænum eins fljótt og auðið er.

Söfnun vegna bruna í Kulusuk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert