„Ekkert nýtt í sjálfu sér“

Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson. Ómar Óskarsson

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis fjallaði á fundi sínum í morgun um komu bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) til Íslands sumarið 2011. Björgvin G. Sigurðsson, formaður nefndarinnar, segir atburðarrásin hafi verið rakin en ekkert nýtt hafi í sjálfu sér komið fram. Fundurinn hafi staðfest skoðun hans að ráðuneytið hafi farið fram með eðlilegum hætti.

Á fundinn komu fulltrúi frá ríkislögreglustjóra, lögreglu höfuðborgarsvæðisins og innanríkisráðuneytinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, óskaði eftir fundinum en nefndin hefur áður fjallað um sama mál.

„Það var ekkert nýtt í sjálfu sér. Atburðir þessa sumars voru raktir, þegar ákveðið var að afturkalla réttarbeiðnina. Það staðfesti mína skoðun en ég tel að ráðuneytið hafi farið fram með réttmætum hætti,“ segir Björgvin. Hann segir nefndarmenn hins vegar ekki alla sammála og deilt sé um verkferla. „Ég held að þetta hafi allt verið innan eðlilegra marka.“

Hvað framhaldið varðar á Björgvin ekki von á því að málið verði tekið fyrir aftur í nefndinni. Ekki aðeins hafi farið fram ítarleg umræða um málið heldur sé einnig afar lítið eftir af þinginu og því lítið svigrúm til fundarhalda. Hann segir í raun enga ástæðu heldur til að fjalla frekar um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert