„Í hvers konar aðstæðum er hann?“

Davíð Arnar Bjarnason og Þóra Birgisdóttir.
Davíð Arnar Bjarnason og Þóra Birgisdóttir.

„Ég hef svo margar spurningar. Ég veit ekki hvernig aðstæður í fangelsinu eru, hvernig farið er með hann og hvenær málið verður tekið fyrir. Ég hef ekkert heyrt frá honum,“ segir Þóra Birgisdóttir, sambýliskona Davíðs Arnar Bjarnasonar sem er í fangelsi í Antalya í Tyrklandi vegna ásakana um fornmunasmygl.

Kona á vegum íslenska ræðismannsins í Antalya fór í gær með peninga til Davíðs svo hann gæti keypt sér mat í fangelsinu. Verið er að leita leiða til að koma til hans fé.

Fær upplýsingar frá fjölmiðlum

Þóra segist ekki hafa getað náð tali af ræðismanninum. „Ég hef ekki heyrt neitt og bíð eftir fréttum. Það litla sem ég veit hef ég eiginlega allt heyrt frá fjölmiðlum,“ segir Þóra. 

„Núna erum við að reyna að finna út úr því hvernig við getum komið peningum til hans svo hann geti keypt sér mat. Mig langar til að vita hvar hann er, mig langar til að vita hvernig aðstæður í fangelsinu eru. Það eru svo miklar getgátur í kringum þetta. Mig langar til að vita hvernig dómskerfið virkar; hvað gæti málið tekið langan tíma? Það eru svo margar spurningar.“ 

Hver væri ekki hræddur?

Að sögn Þóru fóru foreldrar Davíðs Arnar á fund um málið í utanríkisráðuneytinu í gær. Þar kom meðal annars fram að Davíð hefur nú fengið lögmann, en fyrst fór ræðismaður Íslands á svæðinu með málið.  Þá hafi komið fram á fundinum að konan, sem fór með peningana til Davíðs í fangelsið, hafi sagt ræðismanninum að Davíð liti afar illa út og væri mjög skelkaður. „En það eru engar fréttir fyrir mig að hann sé hræddur, hver væri það ekki?“

Veit ekki hversu hrædd ég á að vera

Þóra og Davíð eiga tvö börn saman og Þóra á að auki 10 ára dóttur. Hvernig líður fjölskyldunni? „Auðvitað er ég í miklu áfalli. En þetta er svo mikil óvissa, ég veit ekki hversu hrædd ég á að vera. Pabbi elstu dóttur minnar er að koma [til Svíþjóðar] og ætlar að fara með hana til Íslands. Ég á erfitt með að horfa framan í hana, hún lifir sig svo inn í þetta og ef ég fer að gráta, þá fer hún líka að gráta.“ Tvö yngri börn Þóru eru nú hjá afa sínum og ömmu á Íslandi. „Strákurinn minn sem er að verða fimm ára veit af þessu. Hann vill auðvitað fá pabba sinn.

Þóra er að ganga frá flutningi frá Svíþjóð hingað til lands, en hún hefur starfað þar sem hárgreiðslukona á Tony & Guy í Stokkhólmi en Davíð starfaði sem múrari. „Ef hann fær að fara út gegn tryggingu og verður hugsanlega settur í farbann, þá ætla ég að vera hérna áfram og fara síðan út. Það er miklu auðveldara fyrir mig að fara frá Svíþjóð en frá Íslandi. En ef hann fær það ekki, þá reikna ég með því að koma heim í kringum helgina.“

„Mig langar svo til að fá að heyra í honum, ég skil ekki hvers vegna hann má ekki hringja. Á hann ekki rétt á því? Í hvers konar aðstæðum er hann?“ spyr Þóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert