Vísindamenn höfðu varað við neikvæðum áhrifum á Lagarfljót í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Þetta segir Landvernd sem gerir þá kröfu að íslensk stjórnvöld sýni stöðvi framkvæmdir Landsvirkjunar við Bjarnarflagsvirkjun.
„Landvernd fer fram á að íslensk stjórnvöld sýni ábyrgð í umgengni við Mývatns- og Laxársvæðið og tryggi að framkvæmdir Landsvirkjunar við Bjarnarflagsvirkjun verði stöðvaðar þangað til óvissu um áhrif virkjunarinnar á lífríki svæðisins og heilsu fólks hefur verið eytt,“ segir í tilkynningu frá Landvernd.
Þá segir að vísindamenn vari við því að Bjarnarflagsvirkjun kunni að hafa eyðileggjandi áhrif á lífríki Mývatns, m.a. með mengun og kólnun grunnvatnsstrauma í vatnið. „Auk þess hefur Umhverfisstofnun lýst því yfir að sérfræðingar hennar telji að endurmeta þurfi áhrif virkjunarinnar að hluta. Stjórn Landverndar undirstrikar nauðsyn þess að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir þegar ákvarðanir um stórframkvæmdir eru teknar. Þar skortir oft verulega á eins og Kárahnjúkavirkjun er skýrt dæmi um.“
Landvernd segir að Landsvirkjun hafi lýst því yfir að fyrirtækið hyggist dæla affallsvatni virkjunarinnar niður fyrir grunnvatnsstrauma til Mývatns, en ekki svarað því hvernig það hyggist bregðast við vandamálum sem upp kunni að koma niðurdælinguna.
„Mývatns- og Laxársvæðið nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum sökum einstaks lífríkis og fjölbreyttra jarðmyndana. Um er að ræða eina helstu náttúruperlu landsins, sem auk þess er gríðarlega mikilvæg auðlind í ferðaþjónustu á svæðinu og fyrir ímynd alls landsins,“ segir Landvernd og að íslenskum stjórnvöldum hafi verið sent erindi vegna þessa en því hafi ekki verið svarað.