„Við vonumst til þess að honum [Davíð Erni Bjarnasyni] verði sleppt gegn einhverskonar tryggingu eða gegn loforði um að vera á staðnum þangað til að málið kemur til afgreiðslu,“ segir Pétur Ásgeirsson, sviðsstjóri í utanríkisráðuneytinu, um mál Íslendings sem situr í fangelsi í Tyrklandi. Utanríkisráðherra segir mikilvægt að réttur Davíðs sé virtur og verður íslenskur fulltrúi utanríkisráðuneytisins sendur til hans.
Davíð var handtekinn á flugvellinum í Antalya sl. föstudag grunaður um fornmunasmygl.
„Það hefur verið staðfest að hann hefur fengið læknisskoðun og ræðismaðurinn [Íslands í Ankara í Tyrklandi] hefur upplýst að hann telji, svona í aðalatriðum, ekkert ama að honum annað en að honum líður illa í prísundinni,“ segir Pétur í samtali við mbl.is.
„Ræðismaður okkar vinnur áfram að þessu og er að senda lögmann frá sér til Antalya á morgun,“ segir Pétur ennfremur og bætir við að lögmaðurinn muni fylgjast með framgangi málsins og aðstoða eftir þörfum.
Þá hefur íslenska utanríkisráðuneytið einnig ákveðið að senda íslenskan lögfræðing til Antalya. Hann er fulltrúi í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn sem annast sendiráðsstörf gagnvart Tyrklandi. Hann mun fara til Antalya á morgun og vonast menn til að hann fái að hitta Davíð á fimmtudaginn.
„Hans verkefni er að afla upplýsinga að svo miklu leyti að það er hægt og gera það sem hægt er,“ segir Pétur.
Hann bendir á að Davíð hafi verið skipaður réttargæslumaður af hálfu hins opinbera í Tyrklandi. Því hafi ekki verið breytt.
Aðspurður segir Pétur að ekki hafi fengist staðfest hvenær fyrirtaka málsins fyrir tyrkneskum dómstólum muni fara fram. Ræðismaður Íslands í Ankara sagði í gær að hann vonaðist til að fyrirtakan færi fram í dag eða á morgun. „Þetta er óljóst,“ segir Pétur.
Þá má geta þess að þau Stefán Hrafn Ólafsson og Ósk Ágústsdóttir hafa stofnað styrktarreykning til handa Davíð Erni og unnustu hans. Þau benda áhugasömum á reikningsnúmerið 0322-13-129886 og kennitalan 101281-3969.