„Þetta er mál sem má ekki sofna“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, alþingismaður.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, alþingismaður. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það segir manni bara eitt að ráðherrann hafi haft þann eina ásetning að stoppa rannsókn íslensku lögreglunnar á þessu máli, allavega grípa inn í,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi í dag varðandi þá ákvörðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra að stöðva samstarf íslenskra lögregluyfirvalda við bandarísku alríkislögregluna FBI sumarið 2011.

Vísaði hún til fundar fundar allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun. Spurt var á fundinum um það hvað hafi farið fram á fundi um málið 28. ágúst 2011. Þar hefði komið ótvírætt fram af hálfu lögreglunnar að þau mál sem til rannsóknar hafi verið hafi verið eitt og sama málið. Innanríkisráðherra hefur hins vegar sagt að FBI hafi verið komin út fyrir réttabeiðni sem lá til grundvallar samstarfinu við íslensk lögregluyfirvöld. Því hafi þurft aðra réttarbeiðni til en hún hafi ekki borist.

Leitaði ekki til bandaríska dómsmálaráðuneytisins

„Það var alveg ótvírætt af hálfu lögreglunnar að þarna er tvímælalaust um sama málið að ræða. Það er að segja að ráðherra hafði enga heimild eða forsendur til þess að trufla rannsókn íslensku lögreglunnar á máli sem meðal annars leiddi til rannsóknar í Bandaríkjunum. Ráðherra gat ekki gefið sér neinar nýjar forsendur,“ sagði Þorgerður.

Hún benti á að ef innanríkisráðuneytið hafi talið að það þyrfti nýja réttarbeiðni hefði hún átt samkvæmt samkomulagi við Bandaríkin að leita til bandaríska dómsmálaráðuneytisins. Það hafi ekki verið gert og það bendi til þess að markmið Ögmundar hafi aðeins verið að stöðva umrædda lögreglurannsókn.

„Þeir geta bara verið hér áfram á landinu“

Þorgerður minnti á að í umræðum um málið á fyrri stigum hafi komið fram í máli innanríkisráðherra og Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, að lögð hafi verið áhersla á að koma starfsmönnum FBI úr landi. Hins vegar hafi Ögmundur sagt á fundinum í ágúst 2011, spurður að því af lögreglu hvað FBI-mennirnir ættu að gera: „Þá segir ráðherra: „Þeir geta bara verið hér áfram á landinu.““

„Ráðherra hafði engan áhuga á því að ýta mönnunum, fyrst alvarleikinn var svona mikill, úr landi. Ráðherra hafði bara áhuga á því að stoppa málið. Það eru mörg mál sem halda hér áfram undir lok þingsins, önnur sofna. Þetta er mál sem má ekki sofna því við erum orðin uppvís að því að hið pólitíska framkvæmdavald, pólitískur ráðherra, hefur með ásetningi gripið inn í sjálfstætt ákæruvald. Málið er grafalvarlegt. Þetta er mál sem verður að halda áfram á vegum þingsins,“ sagði hún að lokum.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert